Árbót í Aðaladal

Árbót
Veiðisvæðið Árbót í Laxá í Aðaldal er skemmtilegt veiðisvæði sem er nokkuð langt og fjölbreytt, 3,6 km langt. Mikil urriðaveiði er á svæðinu fyrri hluta sumars og eru fiskarnir þá vænni en gengur og gerist á þessum slóðum. Algengt er að fá þriggja til fimm punda fiska en reglulega koma á land um og yfir átta punda urriðar. Þegar komið er fram í ágúst er laxinn yfirleitt mættur í alla hylji. Svæðið er frægt fyrir stóra laxa sem flestir veiðimenn dreyma um að kljást við. Þarna eru fornfrægir veiðistaðir sem gaman er að veiða, t.d. Breiðeyri, Höskuldarvík, Tjarnarhólmaflúð og Langaflúð. Árbótarsvæðinu fylgir glæsilegt veiðihús með þremur svefnherbergjum og góðri aðstöðu fyrir 5 til 6 manns. Útsýnið af veröndinni er víðfeðmt og glæsilegt. Þaðan sést yfir ána, inn í Aðaldal, út á Skjálfanda og yfir Kinnfjöll. Heitur pottur er einnig til staðar.

Nágrennið er einstaklega áhugavert fyrir ferðafólk. Tilvalið er fyrir alla fjölskylduna að nýta sér þennan kost, því að meðan einhverjir úr fjölskyldunni veiða geta aðrir skoðað nágrennið, farið í hvalaskoðun frá Húsavík eða heimsótt Mývatnssveit. Veiðisvæðið sem tilheyrir Árbót er margbrotið. Efsti staður svæðisins er Breiðeyri en þessi veiðistaður hefur ekki fylgt svæðinu fyrr en nú.
Eyrin er langur strengur sem gefur yfirleitt góða urriðaveiði en seinnipart sumars er mikil laxavon neðan til í honum. Að Breiðeyri er 15 mínútna gangur frá bílastæðinu en gangan er vel þess virði því að mælt er með því að byrja veiði efst í strengnum og veiða hann allan.
Höskuldarvík er næsti staður fyrir neðan, magnaður stórlaxastaður. Langur strengur er ofan við hólmann í Höskuldarvíkinni en aðal tökustaðurinn er ofan til við hólmann. Gott er að veiða alla leið frá hólmanum og niður að brotinu neðst í víkinni en þar er allnokkur laxavon.
Næst er gengið niður að Syðri-Seltanga en sá staður er einn besti urriðastaður á þessu svæði. Þar stoppar lax þegar líður á sumarið. Athuga þarf að lax getur legið nokkuð ofarlega í strengnum og því þarf að byrja ofan við tangann ef stefnt er á að fullreyna staðinn. Botninn er sléttur og gott að vaða. Athuga þarf að lax getur legið austarlega í strengnum þannig að best er að fara stutt út í ána í fyrstu yfirferð yfir strenginn.
Tjarnarhólmaflúð er fallegur veiðistaður þar sem klöpp liggur frá Tjarnarhólma og alveg austur yfir ána. Ofan við hana liggur oft lax en þar er einnig góð urriðaveiði allt sumarið.
Spónhylur er neðan við Tjarnarhólmann. Nokkuð erfitt er að eiga við hann því að einungis er hægt að veiða Spónhyl ef vaðið er út í ána ofan við bílastæðið og kastað langt. Mikill straumur er á svæðinu svo að ekki er ráðlagt að vaða þar einsamall.

Ytri-Seltangi er langur strengur frá Seltanga og alveg niður að Bótarstreng. Strengurinn er langur og fallegur og þar er gaman að veiða. Þegar vaðið er niður frá Seltanga þarf veiðimaðurinn að vaða nokkurn aur áður en hann kemst upp á Sandeyri. Mælt er með að veiða allan strenginn niður að Bótarstreng (Símastreng), sem er fornfrægur stórlaxastaður. Oft tekur laxinn beint út frá skiltinu sem merkir staðinn en þarna þarf að gefa sér þó nokkurn tíma og fara vel yfir allan strenginn.
Neðan við flúðina, sem er neðst í Bótarstreng, eru merktir veiðistaðirnir Syðrivíkurhorn og Gerðisáll. Þeir eru nokkuð góðir silungastaðir en erfitt getur verið að vaða þar.
Næst er ekið niður fyrir túnin og á bílastæðið við Bótarfit. Fyrri hluta sumars er Bótarfit magnaður urriðastaður en þegar líða tekur á sumarið hefur vaxið þar allmikill gróður. Staðurinn er einkar góður til þurrfluguveiða þegar vel viðrar.
Birgisflúð er laxastaður sem er nokkuð erfiður við að eiga með flugu en fyrr á árum veiddist þarna allnokkuð af laxi þegar kastað var langt út með spæni að klettahrygg sem stendur í miðri ánni.
Hraunnef er góður urriðastaður þótt stundum geti þar einnig legið lax.

Næst er gengið niður að Lönguflúð, þetta er mjög góður laxastaður en í allri flúðinni liggur einnig urriði. Þegar flúðin er veidd þarf að byrja frekar langt ofan við klett sem stendur upp úr flúðinni. Langaflúð er mikill stórlaxastaður þar sem lax getur legið víða. Þar er oft góð laxveiði seinni part sumars.
Langur strengur er frá Lönguflúð og niður að Bæjarklöpp og er þar neðsti staður Árbótarsvæðisins. Í öllum þessum streng liggur fiskur þannig að gott er að veiða strenginn allan ef nægur tími er til þess. Út frá Bæjarklöpp stendur lítill tangi sem lax liggur oft utan í.
Árbótarsvæðið er stórt og mikið veiðisvæði. Gott er að skipuleggja vel hvar tímanum er varið svo að veiðin verði sem ánægjulegust. Bestu staðirnir eru efst og neðst á svæðinu þannig að göngutúr upp að Breiðeyri eða niður að Lönguflúð eru yfirleitt ferðir sem borga sig. Einnig er hægt að ganga frá Vörðuholti og niður að Lönguflúð og Bæjarklöpp.