Til baka

Bæjará í Reykhólasveit

Bæjará í Reykhólasveit

Eftir Gunnar Bender og Stefán Kristjánsson

Bæjará í Reykhólasveit Reykhólasveit er í Austur-Barðastrandarsýslu, — næst innsti á hreppur sýslunnar og nær frá Króksfirði að Múlaá í Þorskafirði. Reykhólasveit má án efa telja eina fjölbreytilegustu sveit sýslunnar hvað náttúrufegurð snertir. Sveitin er vel gróin, víða mjög grösug og skógarkjarr allvíða, lyng og mikil berjalönd. Það er eitthvað við sveitina sem fær mann til að koma þangað nokkrum sinnum á sumri og renna í strengi og flúðir veiðiánna þar.

En það sem við ætlum að gera núna er að fá okkur gönguferð niður með Bæjaránni og sjá hvað hún hefur upp á að bjóða, þó aðeins sé veiðisvæði hennar um einn kílómetri að lengd. Efsti veiðistaðurinn í Bæjará er Tónafoss og tekur fiskurinn þar illa, fáir laxar hafa veiðst þar. Þó má sjá stundum töluvert af laxi í fossinum en vegna straumlagsins í honum og þess hve hylurinn er djúpur getur verið erfitt að renna á fiskinn. Leigjendur árinnar hafa reynt að laga fossinn, til að fá fiskinn ofar í ána, en með litlum árangri. Fyrir ofan fossinn og inn allan dalinn er mikið og ónotað svæði. Veiðimaður, sem renndi í Bæjará í fyrra, fékk sér göngutúr fyrir ofan fossinn og varð var við fisk. Hvort þetta var lax eða silungur vissi hann ekki. Fiskurinn fékkst ekki til að taka en þarna voru vænir fiskar, þriggja til fjögurra punda. Tónafoss á sína sögu þótt kannski séu ekki sagðar frá honum miklar veiðisögur. Eitt sinn átti maður að hafa farist í fossinum. Nafnið Tónafoss er komið frá prestinum Tóna sem nefndi hann svo. Hér fyrrum var dregið fyrir fiskinn í fossinum og veiddist oft töluvert í honum á haustin í net. En þrátt fyrir að Tónafoss sé ekki gjöfull er eitthvað við hann sem heillar. En skemmtilegur veiðistaður er hann ekki.

Við skulum færa okkur neðar. Fyrir neðan Tónafoss er renna ein og oft má sjá lax í henni. Þarna hef ég mest séð fimm laxa og náð tveimur af þeim. Á þessum stað lenti ég í ævintýri fyrir nokkrum árum. Ég var þarna við rennuna og hafði komið auga á nokkra laxa. Það var beitt og rennt en laxarnir höfðu ekki áhuga á maðkinum til að byrja með. Ég beið átekta. Einn af löxunum hreyfði sig og renndi sér á maðkinn. Ég leyfði honum að taka vel en fann að það var laust í honum. Laxinn var þreyttur um stund. Rétt út af rennunni var vík sem koma átti honum inn í. Eftir smábrölt var hann kominn þangað. En viti menn, það var laust í laxinum og hann ekki á því að gefa sig. Veiðimaðurinn reyndi að koma í veg fyrir að hann kæmist út. Hann stóð í opinu og laxinn var innst í víkinni. Hann lagðist fyrir opið og varnaði laxinum útgöngu. En viti menn, laxinn var klókari en veiðimaðurinn því að þegar hann ætlaði að ná laxinum innst inni renndi laxinn sér út um opið og var sloppinn. Veiðimaðurinn var svekktur og sá laxana í rennunni en renndi fyrir neðan þó ólíklegt væri að laxinn tæki agnið aftur. Ekkert gerðist heldur og enn var færið dregið inn en þá renndi lax sér á maðkinn og tók. Vinurinn var kominn aftur og krafturinn var ekki mikill í honum núna, enda stóð viðureignin ekki lengi yfir. Laxinum var landað á mjög stuttum tíma, fimm punda fiski. Fleiri fengust ekki til að taka þarna í þetta skiptið.

Áfram rennur Bæjaráin og þá mest um steina og smáholur, við komum næst að fossinum Strokki sem rennur að mestu öðrum megin í ánni. Þarna veiðist sjaldan fiskur í fossinum sjálfum því að hann er ekki djúpur. Rétt fyrir neðan Strokk er renna og þar hafa veiðimenn oft fengið einn og einn lax. Árni Baldursson veiddi einu sinni vænan fisk þarna. Eitt er það sem borgar sig að athuga vel þegar gengið er niður með Bæjará og það er að kanna vel alla strengi, holur og steina. Víða í ánni getur leynst fiskur, sérstaklega á það við á þeim tíma þegar fiskur er í göngu. Ég sá einu sinni 5-6 laxa fara framhjá mér og upp í Tónafoss þar sem þeir fengust ekki til að taka.

Við færum okkur neðar og næst er það Skelin sem er rétt fyrir ofan fossinn en á Skelinni getur oft verið fiskur og gott að renna í hana áður en hugað er að veiði í fossinum. Fossinn er einhver skemmtilegasti staðurinn í ánni. Oft höfum við fengið góða veiði í honum, mest 6 laxa en þrisvar þrjá. Fossinn er ekki hár og fyrir neðan hann kemur hola og það er aðalveiðistaðurinn. Það er bæði hægt að standa á fossbrúninni og renna eða læðast niður og renna beitunni fram af steini sem þarna brýtur á. Þessi steinn hefur reynst mér betur en að standa á fossinum. Beitunni, segi ég, því að Bæjará er maðkaveiðiá. Aðeins einn og einn fluguveiðistaður er í henni, eins og Skessan, sem er nokkru neðar í ánni en Fossinn. Rétt fyrir neðan hana má kasta flugu í Hliðinu, Gullna hliðinu og Lykla-Pétri en við komum að því síðar.

Við erum við fossinn og holuna fyrir neðan hann. Þessi staður hefur oft gefið vel en stundum er mikið af tittum í honum og þá er lítil von um lax. En ef þessir smátittir eru ekki er meiri von um lax eða jafnvel laxa. Í holunni má líka fá væna bleikju, tveggja til þriggja punda þær stærstu. Við skulum hverfa tvö ár aftur í tímann og fylgjast með veiðimanni renna á þessum veiðistað. Veiðimaður kemur niður að veiðistaðnum og er einn síns liðs, aðeins er tekið að skyggja, enda komið fram í september. Veiðimaðurinn læðist og rennir hjá steininum, maðki. Á þessum tíma gerist það oft að fiskurinn færir sig úr Tónafossinum og í veiðistaði fyrir neðan, kannski var fiskurinn búinn að gera það núna? Um leið og maðkurinn er kominn út í er tekið í og veiðimaðurinn slakar, lax hefur tekið. Veiðimaðurinn veit af fyrri reynslu að best er að koma honum strax úr veiðistaðnum, fleiri laxar gætu verið þarna. Hann kemur laxinum úr holunni og landar honum. Hann tekur strax eftir einu: þessi lax hefur ekki verið lengi í ánni, hann er grálúsugur. Til þess að gera langa sögu stutta fengust þarna áður en dimmdi þrír fallegir laxar, allir nýkomnir úr sjó. Það merkilega við þennan atburð var að veiðidagurinn var 19. september. Veiðin getur stundum verið óútreikanleg og laxinn þá sérstaklega. Daginn eftir var rennt aftur í holuna og þá fengust tveir laxar sem ekki höfðu komið nýlega í ána. Kannski höfðu þeir komið úr Tónafossi? Annar var grútleginn.

Við höldum áfram ferð okkar um bakka Bæjarár og eins gott að renna í alla staði, víða getur fiskur leynst. Næst er Skessan, skemmtilegur staður og best að kasta flugunni, þetta er eini staðurinn í ánni þar sem gaman er að kasta flugu. Best að byrja með rauða Franses, nei, þetta er bara smágrin. Veiðimönnum hefur oft reynst vel að prófa ýmsar tegundir af einkrækjum þarna. Við köstum flugunni en ekkert gerist, maðkurinn er reyndur og það fer á sama veg og með fluguna, laxinn tekur ekki. Það sem maður gerir oft í þessari stöðu er að læðast upp á klett sem er þarna hjá Skessunni og athuga hvort ekki sést fiskur. En beint fyrir neðan klettinn er steinn og þar liggur fiskurinn ef hann er. Ef hann er tregur að taka má sitja á klettinum og renna maðki eða kasta flugu. Ef maður kastar flugu þarna uppi á klettinum má sjá laxinn koma og hremma hana. Mest höfum við fengið þrjá laxa í Skessunni. Eins og áður sagði getur verið mikið um smátitti þarna og þá er best að fá sér sæti á klettinum og skoða fallegt landslagið. Að renna rándýrum maðki er bara eyðsla. Í fyrri gerðist það að við vorum að veiða þarna í miklu roki og lítill lax beit á . Fiskurinn var þreyttur og viti menn, hann stökk en svo mikið var rokið að hann fauk á land. Það tók aðeins eina mínútu að landa honum.

Veiðistaðirnir fyrir neðan Skessuna gefa best þegar fiskurinn er í göngu en hann stansar ekki lengi þar. Þetta eru staðir eins og Hliðið, Gullna hliðið og Lykla-Pétur. Einu sinni lenti ég í svakalegum fiski í hliðinu en hann hafði betur. Bæjaráin rennur síðan áfram til sjávar og út í Króksfjörðinn sem býr yfir sinum leyndarmálum. Veiðimaðurinn röltir heim með fallega laxa í poka á bakinu, hann er hress með feng sinn. Á morgun ætlar hann að kanna leyndardóma Bæjarár sem alltaf kemur veiðimönnum á óvart.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar