Flekkudalsá

Flekkudalsá
Vatnasvæðið nær yfir Kjarlaksstaðaá, Tunguá og Flekkudalsá og er einhver fegursti staður á Fellsströnd í Dalasýslu. Flekkudalsá rennur um Flekkudal, Tunguá um Galtardal og saman mynda þær Kjarlaksstaðaá sem rennur í Hvammsfjörð. Vatnasvæðið er u.þ.b. 35 km. Náttúrufegurð er mikil og einstök veðursæld. Þar er skóglendi hvað mest í héraði enda má segja að svæðið sé skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Árið 1940 var girt af skógræktarsvæði í landi Ytra-Fells og hófst þar skipuleg gróðursetning um 1960. Innan skógræktarsvæðisins voru víða surtarbrandsgrafir en surtarbrandur (kolavinnsla) var unninn þar í fyrri heimsstyrjöldinni.
Enginn skyldi láta það fram hjá sér fara að skjótast upp á Ytra-Fells múlann í góðu veðri og njóta fegurðar Breiðafjarðar, eyjanna, Snæfellsnesfjallgarðsins að ógleymdum jöklinum. Veiðimenn geta átt von á að sjá ref við árbakkann og haförn og fálka á flugi. Bæirnir sem eiga land að ánni eru Kjarlaksstaðir, Grund, Stóra-Tunga, Galtartunga, Orrahóll, Lyngbrekka, Svínaskógur, Hallsstaðir, Túngarður, Staðarfell, Harastaðir og Ytra-Fell.

Kjarlaksstaðaá
Veiðistaðalýsing okkar hefst neðst í Kjarlaksstaðaá sem dregur nafn sitt af landnámsmanni er Kjarlakur hét og bjó að Kjarlaksstöðum.
Sjávarfljót er skemmtilegur strengur sem rennur með klöppum og breiða sem breytist milli flóðs og fjöru. Veiðistaðurinn gefur oft vel þegar göngur eru. Ekki má gleyma að renna í hann snemma sumars eða síðsumars þegar stórstreymt er því þá er einnig von á bleikjunni.
Brúarstrengur er djúpur og langur hylur fyrir neðan brúna um þjóðveginn. Hann er góður flugustaður en viðkvæmur eins og flestir staðir árinnar.
Sterkur ber nafn með rentu því hann er sterkur strengur. Laxinn stoppar stutt í honum en staðurinn er góður í miklu vatni.
Efstafljót heitir stór og djúpur hylur sem breiðir vel úr sér. Þarna er fiskur allt sumarið og sést margur maðurinn dvelja þar daglangt í von um að ná þeim stóra. Þetta er afar viðkvæmur staður því um leið og menn koma fram á klettinn styggja þeir fiskinn. Frá vesturbakkanum er gott að veiða á flugu.
Egill er djúp skál, viðkvæmur staður. Best er að byrja að veiða hann mjög ofarlega og á það við um flesta veiðistaði í Flekkudalsá.
Húsflúðir. Þarna eru djúpar klapparrennur og geta menn átt erfitt með að fóta sig. Hann er of lítið stundaður því þarna leynist fiskur víða.
Vaðstrengur. Fyrr á árum stoppaði fiskur mikið í Vaðstreng. Veiðistaðurinn er rétt ofan við veiðihúsið. Þarna hafa menn setið og skyggnt strenginn og engan lax séð, staðið síðan upp - og þá stökkva tveir.
Kvennalaug. Þess verður að gæta að koma að staðnum að ofanverðu þar sem veiðistaðurinn er strengur sem liggur með austurbakkanum.
Kvennaberg er fengsæll veiðistaður, djúpur hylur og veiðist báðum megin frá. Laxinn. getur legið alls staðar og oft mjög neðarlega.
Ármót. Þarna renna árnar saman en veiðistaðurinn er neðst í Tunguánni, á breiðunni.
Næst er ferðinni heitið upp Tunguá sem er tiltölulega vatnslítil á og rennur víða í gljúfrum með fallegum jarðmyndunum. Oft veiðast í henni stærstu laxarnir.
Svartistokkur. Neðsti veiðistaðurinn í Tunguá er langur og djúpur stokkur þar sem laxinn sést og veiðist vel.
Geirmundarfoss. Rétt ofan við Svartastokk er tvískiptur lítill foss, þar sem oft leynist fiskur.
Berghylur. Fallegur foss sem fellur í djúpa skál í stórbrotnu umhverfi.
Smástrengur og Brúarflúð. Þetta eru litlir pyttir rétt neðan vegar. Það er ástæða er til að skoða þá á leið um svæðið.
Réttarstrengur og Réttarfoss. Ef menn koma akandi er gott að leggja bílnum við réttina og veiða þessa tvo staði. Þeir láta ekki mikið yfir sér en veiðin í Réttarfossi er mjög góð.
Grundarstrengur, Bláhylur, Skuggi og Hornflúð. Þessir veiðistaðir eru ekki mikið sóttir en sjálfsagt er að skoða þá.
Tungufljót. Töluverður spölur er frá síðasta veiðistað upp í Tungufljót. Þetta er fengsæll veiðistaður. Hylurinn er ekki stór en stríður strengur. Þetta er mjög auðveiddur staður og þarna hafa margir fengið sinn maríulax.
Kjóastrengur liggur rétt fyrir ofan Tungufljót. Þeir sem koma þar í fyrsta sinn reka upp stór augu. „Þarna er fiskur!“ Já, þarna leynist oft fiskur, ótrúlegt en satt.
Bakkafljót. Þarna og þar fyrir ofan er gaman að ganga um og skoða ef menn hafa nægan tíma en þarna breytir áin sér ár frá ári.
Flekkudalsá. Þetta er stærsta áin á veiðisvæðinu og rennur um Flekkudal. Þar eru yfir 30 merktir veiðistaðir og einnig margir ómerktir. Áin er fjölbreytt veiðilega séð. Neðst í henni eru klettar, lágir fossar og djúpir hyljir en efri hluti árinnar er lygnari og rennur um opin svæði. Lax gengur snemma í ána og getur dreift sér mjög fljótt ef mikið vatn er í henni. Aðkoma að Flekkudalsá er á tvo vegu. Annars vegar er ekið upp vegarslóða örskammt innan við bæjarhúsin að Ytrafelli og er þeim megin hægt að veiða veiðistaðina frá Fossholti og niður úr. T.d. gæti einn veiðimaðurinn látið keyra sig að Þjófastrengjum og skroppið þaðan með ánni að Fossholti og síðan veitt þaðan og niður að Keri og tekið þar bílinn sem skilinn hefði verið eftir á planinu ofan við Gullbráarfoss. Sá sem skildi bílinn eftir á planinu gæti veitt niður að ármótum eða veiðihúsinu.
Er þetta ein af fegurstu gönguleiðum við ána. Hins vegar, til að komast að veiðistöðum í efri hluta árinnar, er ekið um Efribyggðarveg, annað hvort yfir brýrnar á Kjarlaksstaðaá og Tunguá og framhjá bæjunum Galtartungu og Stóru-Tungu og væri þá fyrsti viðkomustaður Orrahóll. Eða að fara inn fyrir Staðarfell og þar til vinstri inn á Efribyggðarveg og stoppa á brúnni yfir Flekkudalsá. Veiðistöðum í ánni er áfram lýst neðan frá og upp eftir.

Klapparstrengur er rétt fyrir ofan ármót. Veiðimenn standa fyrir ofan klappirnar. Þetta er frekar djúpur staður og liggur lax oftast neðarlega í honum en ef menn fara rakleiðis upp á klöppina verður ekki mikið um veiði.
Neðraberg. Þetta er frekar lítill veiðistaður og tekur ekki langan tíma að kanna hvort þar er fiskur.
Rennur eru þrír veiðistaðir, þrír djúpir pyttir sem liggja við suðurlandið. Þarna sést laxinn illa vegna mikils straums. Þeir sem koma gangandi neðan frá veiðihúsi verða að vara sig á því að göngustígurinn liggur mjög nálægt veiðistöðunum.
Efraberg er hylur sem liggur rétt fyrir neðan bergið sem hann er kenndur við. Síðustu árin hefur hann ekki reynst vel vegna þess að hann fylltist af möl.
Hannesarhola er ekki stór veiðistaður að vestanverðu við bergkant.
Hornið er lítill veiðistaður sem liggur beint fram undan miklu bergi þar sem áin beygir.
Breiðfoss og Breiðfossbreiða eru frekar grunnir veiðistaðir, afar viðkvæmir því þarna verður laxinn strax var við menn.
Fornistrengur er gjöfull veiðistaður. Strengurinn rennur úr fossunum og liggur með suðurlandinu. Þetta getur verið langur veiðistaður í miklu vatni. Það var í júlíbyrjun 1998 sem 24 punda hængur tók maðk fyrir neðan steininn. Hófst nú atgangur mikill við að halda fiskinum og koma honum í land. Atök þessi stóðu í um 20 mínútur og var laxinum síðan landað fyrir neðan Breiðfossbrotið. Á meðan þessi átök stóðu yfir var sett í annan lax á sama stað. Viðureignin við þennan lax var veiðimanninum erfiðari en tilefni gaf til vegna áhuga hans á baráttunni við stóra laxinn. Lax þessi reyndist 8 pund og var eins og tittur við hlið hins stóra. Samkvæmt síðustu heimildum er þetta stærsti lax sem veiðst hefur í ánni.
Torfunesfoss. Fyrir neðan Torfunesfoss hefur myndast djúpur hylur. Þar er alltaf fiskur og liggur hann yfirleitt í kringum stóran stein sem er í hylnum. Þarna geta menn veitt á ýmsa vegu, á miðklöppinni eða farið alveg yfir og veitt ofan við fossinn eða smeygt sér niður og staðið við hylinn. Ef arkað er fram á fossbrúnina á góðviðrisdegi, sem er mjög oft við þessa á, sjá menn ekki mikið af laxi því hann er farinn undir fossinn.
Gullbrárstrengur liggur með háu bergi og aðalhylurinn er þar sem bergið endar.
Gullbrárfoss var sprengdur þrisvar sinnum, fyrst 1941, síðan aftur 1952 og síðast stóra rennan 1982 og þá loks gekk það að laxinn kæmist hindrunarlaust upp ána. Þetta er ekki mikill veiðistaður því þarna er oft erfitt að renna þar sem mikið er um hringstreymi.
Kerið er stór skál, rétt við veginn. Veiðimenn standa fyrir ofan fossbrúnina og reyna fyrir sér. Þarna er oft gaman að vera þegar lax er að ganga. Einhverra hluta vegna stekkur hann upp fossinn eins og hnísa.
Fljótið liggur stutt frá veginum og þurfa menn að velja sér góða gönguleið gegnum kjarrið ef þeir koma ekki með ánni að staðnum. Þetta er gullfallegur, viðkvæmur og skemmtilegur flugustaður. Laxinn getur legið alveg uppi í frussinu og langt niður á breiðuna. Frábær töku („hitch“) staður.
Tvíburahola lætur ekki mikið yfir sér en þarna hafa margir fengið góða veiði. (Það vefst fyrir mörgum hvar laxinn liggur. Þegar nálgast er veiðistaðinn skagar ferkantaður steinn út í ána að sunnanverðu, beint undan honum liggur oftast fiskur.) Tvær litlar sögur um þennan stað: Veiðimaður kastaði flugu, laxinn tók strax. Hann glímdi við laxinn í 10-15 mínútur en laxinn losnaði af. Veiðimaðurinn byrjaði að draga inn línunni og gekk á móti henni. Þegar hann nálgaðist tökustaðinn skutust a.m.k. 15 laxar milli fóta honum og út um allt. Hann hélt að það væri bara einn lax í holunni. Í september 1997 kom veiðimaður að holu þessari og renndi með maðki töluvert fyrir ofan veiðistaðinn. Lax tók strax og á næstu tuttugu mínútum lágu þarna 3 laxar. Ákvörðun var þá tekin um að hætta og kíkt ofan í holuna við steininn og sáust þá 4 laxar í holunni.

Þjófastrengur er efsti staðurinn sem menn geta komið akandi að. Útsýnið er mjög fallegt um allan dalinn. Hylurinn ber nafn sitt af því að hann sést ekki frá nokkrum bæ í dalnum og er einn af kemmtilegustu veiðistöðunum í ánni. Veiðistaðurinn byrjar undan sléttri klöpp. Þar getur fiskur legið frá byrjun klapparinnar og allt niður að broti, á u.þ.b. 30 metra löngu svæði. Þetta er rómaður flugustaður.
Fossholt. Best er að fara með ánni frá Þjófastreng og upp í Fossholtið sem er létt 10 mínútna ganga. Einnig má aka lítinn spöl eftir vegarslóða frá Þjófastreng. Slóðin er ekki fólksbílafær. Frá honum er tekin stefna beint að Fossholti sem greinist af flúðum en annmarki á þeirri leið er að menn þurfa að ganga blauta mýrina. Það eru ekki margir sem leggja leið sína þangað og því er veiðivonin meiri fyrir þá sem nenna. Þarna er áin að lækka sig niður á pöllum, efsti pallur, miðpallur og neðsti pallur.
Í Jónsbakka er farið frá Efribyggðarvegi við Orrahól. Fyrri hluta sumar áður en sláttur hefst er best að leggja bílnum ofan túna og ganga niður að Jónsbakka, sem er u.þ.b. 5 mínútna gangur. Þegar tún hafa verið slegin er hægt að aka eftir túninu neðan íbúðarhússins að Orrahóli yfir lækinn sem skiptir túnunum. Jónsbakki er skemmtilegur fluguveiðistaður og er veiðivon í allri beygjunni meðfram sandbakkanum. Þarna er oft lygnt en mjög erfitt er að veiða staðinn í logni. Það er haft eftir gömlum Skagamanni að þarna veiði maður á inniskónum,. þ.e.a.s. fari ekki út í vatnið heldur haldi sig langt uppi á bakka. Jónsbakki er mikill hrygningarstaður.
Bæjareyri. Þegar farið er í Jónsbakka er það tímans virði að kíkja á Bæjareyrina.
Grænhólsbakkar. Tvær leiðir eru að Grænhólsbökkum. Önnur er að leggja bílnum rétt vestan við Svínaskóg og ganga niður með hestagirðingu og taka stefnuna að tanga sem liggur þar beint undan. Hin leiðin er að aka að vaðinu beint undan Svínaskógum og hefja veiðina þar, ganga síðan þaðan með ánni að Grænhólsbökkum. Þetta er nokkur spölur en víða liggur þarna fiskur undir steini eða við bakka. Grænhólsbakkar er djúpur hylur sem hefur breytt sér fram og til baka síðustu árin. Þarna hafa menn oft fengið mjög góða veiði, sérstaklega Þegar líður á sumarið.
Krókshylur er rétt við veginn þar sem áin snarbeygir. Þetta er ekki langur veiðistaður.
Stekkjarlækur hefur ekki gefið mikið síðustu árin en staðir geta breyst ár frá ári.
Brúarhylur er beint undan brúnni. Mjög auðvelt er að skyggna þennan stað af brúnni. Einhverra hluta vegna er þetta ekki gjöfull veiðistaður.
Vað, Sandhólar, Túngarðsstekkur, Mýrar, Merkigil, Hólkot og Staðarbakki eru veiðistaðir fyrir ofan brú. Þessir staðir eru allir síðsumarsstaðir og mjög lítið sóttir. Þarna er hægt að aka upp með ánni töluverðan spotta. Viljum við benda veiðimönnum á að þegar lítið er að hafa í neðri hluta árinnar er vel þess virði að kanna þennan hluta árinnar og hefur það oft reynst mjög vel.


%20(1).jpg)
