Til baka

Geirlandsá

Geirlandsá

Eftir Sigmar Ingason

Hvar er hún eiginlega, þessi Geirlandsá? spyrja margir þegar á hana er minnst. Jú, það er von að spurt sé því að þeir sem aka um Suðurland eftir þjóðvegi 1 og lesa árnöfnin á brúarskiltunum finna nafn hennar hvergi á leið sinni. Þó er það einmitt á hinni sendnu suðurströnd sem vatnið úr Geirlandsánni lýkur sinni löngu ferð til sjávar. Þetta á sér að sjálfsögðu sína skýringu. Spölkorn austan við þann fjölsótta áningarstað Skaftárskála við Kirkjubæjarklaustur er á þjóðvegi nr. 1 löng einbreið brú, kirfilega merkt Breiðbalakvísl. Meginhluti þess vatns sem undir þessa brú rennur kemur úr Geirlandsá en nokkur hundruð metrum ofar fellur í hana önnur á, miklu minni — Stjórn heitir sú — og eftir að þær sameinast heitir vatnsfallið Breiðbalakvísl.

Skapmikil og dyntótt

Og hvernig tekur hún þá á móti veiðimönnum, þessi á sem ég nefni „sjóbirtingsána góðu“ í fyrirsögn þessa pistils? Henni mun seint verða hælt fyrir jafnaðargeð og áreiðanleika — þvert á móti. Hún er óútreiknanleg, sýnir oft og tíðum af sér skapvonsku og óhemjuskap, brýtur land og færir til hauga af möl og býr sér til nýja og nýja farvegi á eyrunum. Þegar hún er í þessum ham sitja veiðimenn í hlýju veiðihússins, horfa út um gluggann og fylgjast með því hvort hámarki vatnavaxtanna sé náð, jafnvel aðeins farið að sjatna svo að hægt verði að sofna vonglaður að kvöldi og láta sig dreyma bústna sjóbirtinga. Hún er nefnilega fljót að skipta skapi, Geirlandsáin, en hefur líka þann eiginleika sem jafnan fylgir öru geði: „Það er fljótt úr henni.“ Og þá er nú aldeilis gaman. Á einni nóttu getur þetta moldarbrúna stórfljót breyst í álitlega og vatnsmikla veiðiá sem streymir fram glaðleg í fasi — ennþá dálítill grámi í vatninu. Meira þarf ekki að segja þeim sem þekkja til sjóbirtingsveiða. Einum degi síðar fellur hún svo tær og virðuleg um gljúfur sitt og eyrar, gáraðar straumtungur teygja sig út í langar spegilsléttar breiður, ólgnandi hringiður prýða yfirborðið í kvörnum við klettahorn.

Það hefur sennilega verið á svona degi sem hinn landskunni fluguveiðimaður, Kolbeinn Grímsson, heimsótti Geirlandsánaí fyrsta sinn. Umsögn hans var eitthvað á þessa leið: „Þó að ég hefði staðið við hliðina á Guði almáttugum þegar hann var að skapa þessa á, hefði mér ekki dottið í hug að biðja hann um að hafa hana eitthvað öðruvísi.“ En svo koma öfgarnar í hina áttina. Veðráttan leggst í norðlægar áttir með þurrki og bjartviðri, heiðalöndin þorna og áin heldur áfram að minnka. Hinir ljósfælnu fiskar, sjóbirtingarnir, fela sig á líklegum stöðum sem ólíklegum, fela sig svo vandlega að glöggir menn geta gengið meðfram hverjum hylnum eftir annan og úrskurðað: Hér er enginn fiskur. Við slíkar aðstæður er lítil veiðivon en mikið getur það samt verið gaman að rölta meðfram ánni í þessu fallega umhverfi og láta reyna á færni sína og heppni. Jú, það veiðist nú reyndar einn og einn. Og áin, hún sniglast vissulega áfram, heldur ókát og letileg. Skyldi það hafa verið á svona degi sem þessi vísa varð til?

Ærufiskinn ég ekki fékk,

er því dálítið sleginn,

upp og niður með ánni gekk

og kastaði flugu trekk í trekk

svo grasið tættist úr bökkunum báðum megin.

Hér þarf líklega að fylgja skýring. Ærufiskurinn er sá fyrsti sem maður fær í hverri veiðiferð. Þetta lærði ég af mér eldri og reyndari veiðimönnum þegar ég var að byrja að fást við stangveiði.

Frá heiðum til sanda

Geirlandsáin er dæmigerð dragá. Hún nýtur ekki vatnsmiðlunur úr stöðuvötnum heldur á hún upptök sín á votlendum heiðum og eina vatnsmiðlunin er mýrarflákarnir sem þar eru. Þegar helstu upptakakvíslarnar hafa sameinast fellur áin niður í gljúfur og þar verður í henni tignarlegur foss - Fagrifoss. Fáeinum kílómetrum neðar steypist hún svo niður annað gljúfur - Hagagljúfur - fossinn þar heitir Hagafoss. Hagagljúfrið er aðdáendum Geirlandsár kunnugt, það er fiskgengt upp að Hagafossi. Við Búlandið - gömul beitarhús frá Efri-Mörtungu - breytist umhverfi árinnar. Það verður rýmra um hana og í staðinn fyrir klettana svipmiklu í gljúfrinu taka við brattar brekkur upp frá ánni báðum megin og á milli þeirra fellur hún á allbreiðum malareyrum. Spölkorn fyrir neðan bæinn í Neðri-Mörtungu kemur Þveráin til liðs við Geirlandsána úr austri - meinleysisleg að jafnaði en getur orðið hið mesta forað í stórrigningum.

Þarna breytir umhverfi árinnar enn um svip. Nú taka við víðáttumiklar sléttar eyrar þar sem hún flæmist um og breytir farvegi sínum eftir eigin smekk, bændum og vegagerðarmönnum til lítillar gleði. Eyrarnar eru úr nokkuð grófri möl, þó ekki grófari en svo að sæmilega skóaðir bílar geta farið þar um nokkuð að vild. Þetta á við um allt svæðið frá Þverárósi niður að ármótum við Stjórn. Þar tekur sandurinn við. Við ármótin hagar svo til að aðalstraumstefna Geirlandsár liggur þvert á háann bakka úr mjög sendnum jarðvegi. Þar verður því á ári hverju mikið rof og smám saman styttist spölurinn að þjóðveginum. Það er því líklegt að fyrr eða síðar þurfi að hindra þetta landrof með grjótvörn eða breyta rennsli árinnar með fyrirhleðslugörðum á eyrunum. Hér er landið marflatt, jarðvegurinn og þar með árfarvegurinn er sandur og aftur sandur. Þótt svo sé er þarna nokkra veiðistaði að finna, þá helst við brúna á þjóðveginum og við fyrirhleðslugarðana við hana.

Fiskarnir í Geirlandsánni

Samkvæmt þeim heimildum sem mér eru tiltækar og miðað við eigin reynslu hafa veiðst í Geirlandsá allar hinar algengu tegundir íslenskra vatnafiska, urriði, staðbundinn og sjógenginn, bleikja staðbundin og sjógengin og svo laxinn. Það vantar aðeins álinn en þar á móti kemur að það hafa veiðst í henni hnúðlaxar. Þótt ég telji hér upp þessar tegundir allar eru það aðeins tvær þeirra sem skipta máli, laxinn og sjógengni urriðinn, sjóbirtingurinn. Aldraðir menn sem ég ræddi við og lengi höfðu átt heima á bökkum Geirlandsár, sögðu mér að fyrr á árum hefði aldrei sést lax í þeirri á, sjóbirtingurinn var alls ráðandi. Svo var það á árunum fyrir 1970 að ár eftir ár veiddust laxar, ekki mjög margir að vísu en fór fjölgandi. Sennilega tengdist þetta laxaseiðasleppingum annars staðar á hinu víðfeðma vatnasvæði sem Geirlandsáin er hluti af. Eftir 1970 var svo að frumkvæði Sigfúsar Vigfússonar á Geirlandi, hafist handa við að sleppa laxaseiðum í Geirlandsána sjálfa og því haldið áfram í nokkur ár. Árangurinn af þessu er sá að nú hefur þróast dálítill laxastofn sem á þarna "lögheimili". ekki er sá stofn stór en kærkomin búbót sem gefur veiðivon strax upp úr miðjum júlímánuði, löngu áður en sjóbirtingurinn lætur sjá sig. Gleðilegt er að allra síðustu ár hefur laxveiðin aukist verulega. Ef tekið er meðaltal áranna 2008, 2009 og 2010 er útkoman 113 laxar á ári. Nú er eftir að sjá hvort framhald verður á þessu.

‍Þá er komið að höfuðdjásni árinnar, sjóbirtingnum. Hann hefur þann háttinn á að hann kemur ekki upp í ánna fyrr en líður á haust, töluvert seinna nú á síðustu árum en þegar ég kynntist þessu svæði fyrir u.þ.b. 40 árum. Þá gat verið kominn góð sjóbirtingsveiði strax um 20. ágúst og eftirsóttustu veiðidagarnir voru um mánaðarmótin ágúst-september. Til gamans tók ég saman haustveiðina á sjóbirtingi í Geirlandsánni á 10 ára tímabili frá 1999 til 2009 og niðurstaðan var að meðalfjöldi þessara ára reyndist 170 fiskur. Og þeir eru vænir, skaftfellsku birtingarnir - meðalþyngdin á fyrrnefndu tímabili 2,6 kg.

Lífsferill sjóbirtingsins er gerólíkur því sem gerist hjá laxinum. Laxaseiðin ganga í sjó eftir tveggja til fjögurra ára uppvaxtarskeið í sinni heimaá. Þar þroskast þau mjög hratt og ganga sem kynþroska fiskar upp í ána sína eftir eitt eða tvö. Sjóbirtingarnir ganga til sjáver eftir svipaða dvöl í ferskvatni og laxaseiðin en þau þroskast miklu hægar og eru gjarnar búin að ganga tvær til þrjár ferðir til sjávar áður en þau verða kynþroska. Eftir að kynþroska er náð geta sjóbirtingarnir farið margar ferðir til sjáver og hrygna þá oftast árlega en þó ekki alltaf. Árleg dvöl sjóbirtinganna í sjó er hins vegar miklu skemmri en hjá laxinum, aðeins fjórir til fimm mánuðir hverju sinni og talið er að hann haldi sig meðfram ströndinni, ekki mjög langt frá heimaánni, öfugt við laxinn sem fer í sína miklu fæðuöflunarleiðangra um úthöfin.

Út að veiða

Saga stangveiðinnar í Geirlandsá er ekki löng. Árið 1970 tók Stangveiðifélag Keflavíkur ána á leigu og hefur svo staðið óslitið síðan. Fyrir þann tíma stunduðu heimamenn netaveiði og gestir og gangandi fengu að grípa í stangveiði sér til sálubótar eftir að sá háttur var tekinn upp hér á landi. Elstu heimildir, sem ég hef rekist á um veiði í Geirlandsá, er að finna í sjálfsævisögu séra Jóns Steingrímssonar eldklerks, frá tímum Skaftáreldanna á 18. öld, en hann var þjónandi prestur í Kirkjubæjarklaustursprestakalli og sat á Prestbakka.

Leið svo þetta sumar 1784

Kona mín lagðist upp á sængina mjög þunglega haldin, sem leiddi hana til dauða ... þann 7. Octobris á hennar 66. aldursári, þá við höfðum í hjónabandi verið 31 ár 4 dga betur. Þá átti ég enga sauðaskepnu ... Hjálpaði Pétur minn Sveinsson um sauð til útfararkostnaðar hennar. Ég hugsaði þá til guðs, hvort ég mundi nú vera í sömu náð hjá honum og þá við komum saman, bað því einn mann að fara hér fram í kvíslina og reyna, hvort guð gæfi mér ei silung eins og fyrr. En þó honum og öllum þætti það ólíklegt, að hann gæfist, fór hann og hitti í einum á 16 silunga, hvern hér um bil 8 merkur, svo hér var enn nóg og yfirfljótanlegt af honum til þess, er ég nú með þurfti. Þannig er guð óendanlega góður. (Ævisaga síra Jóns Steingrímssonar, bls. 191. Helgafell, Reykjavík, 1945.)

Ein mörk er 1/4 úr kílói. Þetta hafa verið fjögurra punda birtingar. Þetta er mjög athyglisverð heimild, að meira að segja í þeim miklu náttúruhamförum, Skaftáreldum, mætti sjóbirtingurinn í Geirlandsána og bætti úr brýnni þörf.

En við ætlum að veiða og við skulum byrja neðst og fikra okkur upp á við. Hér ætla ég ekki að hafa þann háttinn á að lýsa hverjum veiðistað, það yrði allt of langt mál. en þeim sem vilja fá svo fullkomna fræðslu vil ég benda á að fyrir nokkrum árum skrifaði ég bókarkorn um Geirlandsána og þá bók er hægt að fá, bæði hjá þeim sem þetta ritar og hjá Stangveiðifélagi Keflavíkur. Veiðistaðirnar þarna neðst eru mjög aðgengilegir, hægt að aka að þeim eftir sveitarvegum og eyrarslóðum.

Ármótin eru langsamlega gjöfulasti veiðistaðurinn. eins og frá er greint framar í þessum pistli leggst árstraumurinn hér þvert á sendinn bakka og segja má að í hvert sinn sem vex í ánni falli stórir grashnausar í miklum mæli niður í hana. Þetta grashnausasafn býður sjóbirtingunum upp á fjölda felustaða sem þeir kunna vel að meta. Bakkinn títtnefndur er langur og meðfram honum öllum er veiðivon og jafnvel ennþá neðar. Veiðistaðurinn er því mjög langur - svo langur raunar að þar gætu allir fjorir leyfishafarnir í ánni veitt samtímis án þess að flækjast hver fyrir öðrum. Þessi veiðistaður býður upp á fleira en fíðfeðmi og fiskafjöld. Aðstaða til að standa að veiðum á eyrunum andspænis bakkanum er ákjósanleg og hægt að hafa bílinn næstum því innan seilingar og skjótast í skjól og kaffisopa ef hraglandi er í veðrinu. Eða þá útsýnið þegar bjart er í veðri: Hálendisbrúnin og núparnir upp af Síðunni blasa við í fjölbreytileika sínum og í austri gnæfir sjálfur Öræfajökull - svo stekkur silfraður fiskur yfir undir bakkanum; er hægt að biðja um meira?

Þá er komið að því sem ég kalla miðsvæði árinnar og nær frá ármótunum þar sem Þveráin fellur í Geirlandsána og upp að Búlandinu þar sem Flatarhylurinn markar upphaf gljúfursins. Fyrst eru allbreiðar eyrar meðfram ánni, brattar grasbrekkur þar upp af, þá taka við breiðir hjallar, mishæðóttir og grösugir. Sameiginlegt einkenni því nær allra veiðistaða á þessu svæði er að þar skellur áin á klapparhornum eða fellur upp að klettum á bökkunum og grefur sér djúpa hylji. Aðgengi er hér ekki eins auðvelt og á neðsta svæðinu en má þó teljst mjög gottsvo lengi sem áin fer ekki yfir meðalrennsli og hægt er að vaða hana á nokkrum stöðum.

Þá er komið að leiðangrinum inn í gljúfur. Á eyrinni við Flatarhylinn, beint niður af Búlandinu, er endastöð bílanna. Það sem eftir er leiðarinnar upp að Hagafossi - gljúfrið - verður að fara á tveimur jafnfljótum. Gljúfrið er ævintýraheimur, ekki endilega vegna þess að þar reki hvert veiðiævintýrið annað heldur vegna umhverfisins. Þar eru þó vissulega margir glæsilegir og gjöfulir veiðistaðir. Gljúfrið er mjög djúpt, þrengist lítillega eftir því sem ofar dregur en er þó hvergi þröngt. að því liggja klettar og skriður og allt er umhverfið stórbrotið og svipmikið. Ef haldið er hiklaust áfram frá Flatarhyl inn að Hagafossi tekur gangarn u.þ.b. 25 mínútur. Slík ferð verður þó því aðeins farin að skikkanlegt vatn sé í ánni og hún væð á nokkrum stöðum. Í mínum huga er það alltaf sérstakt ævintýri að veiða inni gljúfri. Ég held að það lýsi því best með því að skjóta hér inn lítilli sögu sem ég tók upp úr Geirlandsárbókinni áðurnefndri:

Við fórum saman í bíl inn að Flatarhyl og skiptum þar liði. Ég fékk efsta hluta gljúfursins. Ég notaði mína venjulegu aðferð, að kasta í hvern hyl á leiðinni inn eftir og svo aftur í bakaleið. Aðferðin áðurnefnda, að draga Devonin undir strenginn efst, bar árangur, vænn fiskur tók í Eyjarhylnum. Hugur minn fylltist þessari einstöku gleði og spennu sem fylgir því að vera aleinn að þreyta vænan fisk. Það er ekki langt frá Eyjahyl niður að bílastæðinu við Flatarhylinn, svo sem 15 mínútna gangur, en samt miðlar umhverfið þeirri tilfinningu að maður sé lengst inni í óbyggðum. Hér er ekkert sem minnir á umsvif og eril mannabyggða, aðeins stórbrotið umhverfið í gljúfrinu og straumniður árinnar.

Ég naut stundarinnar og eftir hæfilegan tíma lá vænn lax á eyrinni. Eftir að hafa í mestu rólegheitum gengið frá fiski og stöng rétti ég úr mér og horfði á umhverfið. Hylinn glæsilega, síðsumarsbirtuna á hálfskýjuðum himni, skuggana í gljúfrinu, fiskinn á eyrinni. Þetta var fullkomið. Ég fór að losa spennuna úr öxlunum með því að hreyfa handleggina fram og aftur og út til hliðar og í einhvers konar alsælu rétti ég út báðar hendur og ávarpaði fiskinn á eyrinni stundarhátt: "Þú stóðst þig bara vel kallinn." Ég er ekki viss um að ég hafi verið búinn að segja öll orðin þegar að baki mér braust út hláturroka, ekki lágvær. Eins og líkum lætur brá mér ákaflega og ekki dró það úr kátínu félaga minna sem höfðu ákveðið það í tregfiskeríinu að ganga til móts við mig. (Bls. 75)

Sem áður er getið kemur sjóbirtingurinn ána mjög seint á veiðitímanum. Við því hefur verið brugðist með því að lengja veiðitímann til 20. október nú hin síðari ár. Veiði í gljúfrinu er þó aðeins heimil til 20. september. Tíminn, sem gefst til þess að glíma við sjóbirtingana inn í gljúfri, er því harla stuttur og komast færri að en vilja. Ekki verður kaflanum Út að veiða lokið án þess að minnast á vorveiðina. Heimilt er að hefja veiðar í Geirlandsá 1. apríl og fyrstu dagarnir eru eftirsóttir enda veiðist þá oft vel. Svo sem ráða má af tímanum er sá fiskur sem þá veiðist eingöngu niðurgöngufiskur, æði misjafn að útliti og gæðum. Silfraðir og bústnir 3ja punda ókynþroska birtingar eru sannarlega eðalveiði en langir mjóslegnir hrygningarfiskar, næstum svartir á lit, eru það hins vegar aldeilis ekki. Nú hin síðari ár er "veiða og sleppa" aðferðin ríkjandi í vorveiðinni sem er svo til eingöngu bundið við Ármótin, aðeins örfáir fiskar veiðast annars staðar.

Geirlandsáin og ég

‍Það var á fyrstu dögum aprílmánaðar árið 1970 að við, þrír félagar úr SVFK, kvöddum dyra hjá Sigfúsi á Geirlandi, komnir í vorveiðina. Félagið hafði þá nokkrum vikum áður gengið frá samningum um að taka ána á leigu. Þetta þótti allt töluvert ævintýri, ferðalagi langt á mælikvarða þess tíma og áin óskrifað blað sem stangveiðisvæði. Við byrjuðum á að hossast á holóttum malarvegi einhversstaðar nærri Rauðavatni og héldum því áfram á leiðarenda. Þannig var nú vegakerfið á þeim árum og Landroverinn minn þekki þýðastur bíla. Í þessari verð voru auk mín Sigurður Ingimundarson, stjórnarmaður í SVFK og Sigurður Pálsson, nú þekktur fluguhnýtingameistari og kennari í stangveiðifræðunum, en var þá að stíga sín fyrstu skref í þeirri grein og svo var einnig um mig. Sigurður Ingimundarson átti hins vegar margar veiðiferðir að baki og hafði víða kastað agni sínu. Hann gat því frætt okkur nýgræðingana um marga hluti.

Ég held að enginn okkar hafi þá kunnað neitt til verka í fluguveiði og ekki man ég til þess að maðkar væru með í för. Nú skyldi veitt á spinnera og spæni og af þeim hlutum vorum við birgir. Það stóð ekki á viðbrögðum þegar við byrjuðum að kasta. Fiskar af ýmsum stærðum og gerðum tóku agn okkar, stukku og busluðu, sumir sluppu. Nokkrir laxar mjóslegnir en silfraðir komu á land, dæmigerðir niðurgöngufiskar. Við höfðum vit á að sleppa þeim en "svartir" sjóbirtingar með sama vaxtarlag höfnuðu ásamt öðrum álitlegri í plastkassanum aftur í Landrovernum. Heim komnir komumst við að raun um að á matborðið áttu þeir ekkert erindi. Sem betur fór voru þeir ekki mjög margir, hinir, þeir búsnu og bragðgóðu, voru miklu fleiri. Engir stórfiskar voru í þessari veiði og reikult minni mitt segir mér að stærðin hafi verið 3-7 pund og að heildartalan hafi verið 20+. Þar af veiddi Sigurður Ingimundarson meira en helminginn - hann kunni til verka.

Svona veiði var mér algjör nýlunda. Veiðistaðurinn þar sem hægt var að veiða með þremur stöngum samtímis og alltaf öðru hvoru verið að þreyta fisk - þetta var ævintýri og tók öllu því fram sem ég hafði áður reynt. Síðsumar þetta sama ár fór ég inn í gljúfur og kynntist því að veiða í því stórkostlega umhverfi. Tveimur eða þremur árum síðar gaf Geirlandsáin mér fyrstu flugufiskana mína - tvo laxa í sömu ferðinni. Á þessu sömu árum tók ég oftar en einu sinni þátt í ævintýralegri haustveiði þar sem skráð var í veiðibókina eitthvað á fjórða tug fiska. Og þetta voru engir smáfiskar. Sjálfur hef ég að vísu ekki náð stærri fisk en 12 pund ef rétt er munað en 12 pund er nú bara nokkuð gott. Í höndum veiðifélaga minna hef ég hinsvegar séð 14, 15 og 17 punda fiska. Það var líka snemma á þessum Geirlandsártíma að ég stóð við Rafstöðvarstrenginn og á um það bil einni og hálfri klukkustund tóku 7 fiskar Devoninn minn og ég náði þeim öllum.

Þetta gat ekki farið nema á einn veg. Geirlandsáin varð mín uppáhaldsá og ég var reiðubúinn að fyrirgefa henni duttlunguna og koma sáttur heim úr fiskleysisferðum sem vissulega eru orðnar nokkuð margar. Á ári hverju eftir 1970 hef ég gengið um bakka Geirlandsár með veiðistöng í hönd og vongleði í hjarta. Sum árin hafa ferðirnar orðið margar en oftast 2-3. Samtalan er því komin nokkuð á annað hundraðið. Þegar ég lít til baka finnst mér að við höfum fylgst að - þróast í takt - þennan tíma, ég og Geirlandsáin. Þegar ég heimsótti hana fyrst var ég kunnáttulítill byrjandi í stangveiðinni og hún að fara inn í fyrsta sumarið í útleigu til veiða. Eftir öll þessi ár - 42 er þau víst orðin - er Geirlandsáin orðin viðurkennd og eftirsótt veiðiá. Ég hef líka þróast dálítið, er orðinn sæmilega liðtækur stangveiðimaður.

Hamhleypan og ólíkindatólið Geirlandsá hefur sýnt á sér ýmsar hliðar þegar ég hef komið í heimsókn, ég er jafnlyndari og móðgast ekki af smámunum. Þegar lítið veiðist er það alltaf jafn hollt og gott fyrir sálartetrið að dvelja í þessu fallega umhverfi í góðum félagsskap og gleðjast yfir því "að stíga fæti á fold og fylla lungun í blænum".

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar