Langá á Mýrum

Langá á Mýrum
Eftir Ingva Hrafn Jónsson
Myndir Rafn Haffjörð
Langá á Mýrum hefur verði í hópi gjöfulustu laxveiðiáa landsins sl. 30 ár og í engri annarri á hafa landeigendur ráðist í jafnmiklar fiskvega- og gönguleiðaframkvæmdir. Frá 1962 hafa veiðibændur við Langá byggt 5 laxastiga, vatnsmiðlunarstíflu í Langavatni og lagt í miklar vegaframkvæmdir þannig að nú má heita að hægt sé að aka að öllum 93 merktum veiðistöðum Langár á 26 km veiðibakka. Þessar stigaframkvæmdir hafa frá 1962 tvöfaldað veiðisvæðið, úr 13 km í 26. Og enn er laxinn að nema ný búsetusvæði í ánni þannig að í upphafi nýrrar aldar verður hún í fullri seiðaframleiðslu frá Langavatni að Sjávarfossi og í framhaldi fer lax að stökkva í fögrum strengjum, flúðum og hyljum á svæðinu neðan stíflunnar og niður að ármótum Gljúfurár og Langár. Fjórðungur Langárvatnsins fellur um Gljúfurá frá ármótum en þar myndast stærsta landeyja á Íslandi því Gljúfurá rennur í Norðurá og þaðan í Hvítá til sjávar og má því segja að Langár- og Gljúfurárvatnið hittist aftur í sjónum vestan við Borgarnes.
Langá er nú í fyrsta sinn í áratugi leigð út í heild sinni en frá síðustu aldamótum og þar til heimsstyrjöldin síðari skall á haustið 1939 leigði breski kvenskörungurinn Walterina Favoretta Kennard ána og byggði þá m.a. setustofu veiðimanna við íbúðarhúsið á Langárfossi, sem nú kallast ensku húsin. Árið 1927 byggði hún svo Sveðjukot sem nú er í eigu sona Péturs Snælands. Það var notað sem veiðihús fyrir silungasvæðið á Grenjadal, sem gengur undir nafninu Fjallið, og síðsumarsveiðina fyrir neðan Sveðjufoss þar sem laxinn bunkaðist er hann komst ekki lengra en laxastiginn í Sveðju var opnaður 1967.
Langárbændur byggðu 1998 nýtt glæsilegt veiðihús á árbakkanum í landi Jarðlangsstaða. Það heitir Langárbyrgi og stendur á Byrgisholti, 6 km ofan við þjóðveginn vestur á Snæfellsnes. Veiðisvæði Langár er nú veitt með 12 stöngum í júlí og ágúst en 8 stöngum í júní og:eftir 10. september. Fyrstu fjóra áratugi aldarinnar voru stangirnar 3 og mikill hluti veiðinnar fór fram neðan við Skuggafoss sem sést frá þjóðveginum. Áður en laxastiginn var var byggður komst laxinn ekki upp fossinn fyrr en fór að líða á sumar og vatn var orðið hæfilegt. Á vatnsmiklum sumrum var jafnvel helmingur veiðitímans liðinn áður en lax komst í uppána. En móðir náttúra reyndi að sjá við þessu með því að hafa Langárlaxinn mjósleginn en með feikna breiða sporðblöðku. Þannig kemur það fyrir veiðimenn við Langá á hverju ári að þeir halda sig vera með tuttugupundara þegar þeir sjá lengdina milli línunnar og stirtlunnar. En síðan sýnir vigtin 10-12 pund. Þótt Langárlaxinn sé smár er hann knár og margir veiðimenn telja hann einn sterkasta fisk sem þeir takast á við miðað við lengd og þyngd.
Langárbændur gerðu árið 1980 tilraun til að kynbæta Langárstofninn með því að sleppa 30.000 sumarseiðum og 5.000 merktum gönguseiðum frá Norðurlaxi á Laxamýri undan Aðaldalsstórlöxum í ána. Engin gönguseiði skiluðu sér en sumarið 1986 gengu í Langá 10-20 drellar á bilinu 20-25 pund. 4 þeirra var landað en 5-6 töpuðust eftir æsilegustu viðureignir í sögu Langár. Allt voru það erlendir veiðimenn með litlar flugur og granna tauma sem misstu þá og minnast þess enn í dag er þeir misstu þann stóra. Að öðru leyti hafa Langárbændur ekki orðið varir við stórlaxa ættaða frá Laxamýri, enda Langá ekki hönnuð af náttúrunnar hendi sem stórlaxaá.
Við skulum þá leggja af stað upp Langá og byrjum í Sjávarfossi. Hafið hugfast að öll veiðimerki við Langá eru sett niður 15-20 metrum ofan við fyrsta tökustað. Þannig að ef menn byrja við eða rétt ofan við merkið er lítil hætta á að styggja laxinn.
1 SJÁVARFOSS
Þær eru ekki margar árnar á Íslandi þar sem veiðimenn geta fylgst með göngunum af sjávarhamrinum og séð hverju þeir eiga von á. Hér standa menn oft tímunum saman og horfa á tuga og hundruða laxa torfur sem stundum taka 1-2 sólarhringa í að ferskvatnsvenja sig áður en þeir renna upp í ána á flóði. Hér veiðast ekki margir laxar þótt torfurnar séu stórar en margir koma upp og skoða fluguna. Hér þarf góða tvíhendu til að koma flugunni nægilega langt út til að eiga möguleika. Eitt sinn á sokkabandsárum undiritaðs var ég á þjóðhátíðardaginn 17. júní orðinn svo svekktur á að laxinn tók ekki flugu að ég greip maðkastöng og þrusaði maðkatartar með tveimur sökkum út á móti torfunni. Viti menn, einn magagleypti maðkinn en tveir skelltu sér sinn á hverja sökkuna og í ca 1 mínútu var ég með 3 bolta á og engu líkara var en þeir tveir sem héngu á sökkunum væru að reyna losa þann sem var á önglinum. Svo slepptu þeir en ég landaði 12 punda hrygnu í voginum fyrir neðan þjóðveginn.

2 FOSSBREIÐA
Þetta er fyrsti stoppstaðurinn í ánni, 15 metra ofan við Sjávarfossbrún. Best er að standa rétt utan við bergið og kasta vestur yfir strenginn. Aðaltökustaðurinn er við endann á hvítfyssinu. Hér skulu menn vera viðbúnir að laxinn steypi sér niður fossinn í sjóinn og þá er að lempa hann inn með berginu í átt að þjóðveginum og landa í lítilli vík.
3 HOLAN
Ef einn er að veiða á Fossbreiðu og annar í Holu myndi lax Holumannsins geta tekið við hælana á Fossbreiðumanni, á blábrotinu og að öllum líkindum halda til sjávar.
4 KRÓKÓDÍLL
Lítil straumhörð renna efst undir berginu. Feiknaskemntilegt þegar laxinn skellir sér á fluguna og sveiflar sér út í strauminn í átt til sjávar. Betra er að vera hér með sterkan taum.
5 DYRFLJÓT
Strengurinn fyrir neðan flúðina og beygjuna. Best að byrja fyrir ofan flúðina og kasta vestur yfir strenginn og alveg niður undir flúðina rétt fyrir ofan Krókódíl.
6 HORNBREIÐA
Þetta er lítill renna sem liggur upp með horninu og laxinn getur hér tekið frá merkinu og niður að Dyrfljótsflúð.
7 MYRKHYLSBREIÐA
Hér má oft frá austurbakka sjá göngulaxa á morgnana og er rétt að fara mjög varlega en miklu betra er að fara niður vesturbakkann fyrir neðan brúna og kasta austur yfir og láta agnið berast yfir steina í botninum þar sem laxinn liggur.
8 MYRKHYLUR
Hér veiðist betur frá austurbakka og best að byrja rétt neðan við flúðina út af merkinu og kasta ofan við klapparhornið að vestan og láta fljóta niður með í átt að brúnni. Það er oft með ólíkindum hve erfitt er að fá ann til að taka miðað við mergðina sem sést með berum augum.
9 BREIÐAN
Einn gjöfulasti staðurinn í Langá. Hér er almennt veitt af austurbakka vel að vestan. Tökustaðurinn er samfelldur frá steini út af merkinu og niður á blábrotið.
10 STRENGIR
Annar stórveiðistaður. Byrjað er rétt neðan við fossinn og kastað á allar flúðir og veitt niður á klapparnefið. Með löngum köstum má ná niður undir Breiðuna.

11 KERSTAPAFLJÓT
Sérlega skemmtilegur staður með mörgum tökustöðum í stríðum strengjum niður á lygna breiðuna. Veiðist jafnt frá báðum bökkum.
12 KERSTAPASTRENGUR
Beint framhald af fljótinu en stríðari straumur og ekki jafngjöfull. Veiðist betur frá austurbakka, með löngum köstum yfir að vesturbakkanum.
13 SÍMASTRENGUR
Hér er rétt að byrja ofan við brúna frá austurbakka og kasta nokkur köst ofan við vestari brúarstólpann því dýpi er við vesturbakkann nokkuð niður fyrir brú. Síðan að kasta á allan strenginn niður á brotið fyrir ofan Kerstapa. Þarna eru víða steinar og klappir í botni sem mynda laxabústaði.
14 BREKKUBUGUR
Falleg breiða og strengur undir hlíðinni. Ekki mjög gjöfull staður nema þegar lax er í göngu.
14A HÓLMAVAÐ
Lítill snotur strengur ofan við hornið. Laxinn getur legið beggja megin við skerið í miðjunni, nokkuð neðan við merkið.
14B HALLBJARNARBUGUR
Hér er djúpur hylur fyrir neðan sker í miðri ánni og er best að vaða út frá austurbakkanum.
15 BUGURINN
Sérlega fallegur fluguveiðistrengur. Best er að fara út af merkinu fyrir ofan seiðasleppitjörn og veiða allan strenginn niður að beygjunni.
16 KATTARFOSSGLJÚFUR
Hér þarf að ganga 60-70 metra upp með gljúfrinu og ganga niður stiga að veiðistaðnum. Hér eru margar gjótur þar sem laxinn liggur en yfirleitt veiðist hér best þegar áin er vatnsmikil. Farið varlega með brúninni til að styggja ekki laxinn.
17 KATTARFOSSBRÚN
Vaðið út frá merkinu og gætið þess að veiða alveg niður á bláfossbrún í vesturfallinu því laxinn getur tekið þegar menn halda að agnið sé að detta niður í fossinn.
18 TORFAN
Laxinn liggur hér fyrir ofan og niður með garðinum. Ekki mjög gjöfull staður.
19 SELHÓLAFLJÓT
Tvíburastaður Torfunnar.
20 EYRARSUND
Snotur strengur niður með klöppinni að vestanverðu. Laxinn tekur einkum á og nokkru niður fyrir klapparhornið.
21 ÞJÓTANDI
Þjótandi er nokkru neðar þar sem állinn sveigir til suðvesturs á ný fyrir klettótt horn. Þar veiðist þegar áin er lægri og staumur minni en við slíkar aðstæður er þetta gjöfull staður. Þannig má segja að þessir tveir veiðistaðir bæti hvorn annan upp þar sem yfirleitt er góð veiðivon í öðrum hvorum þeirra. Besti tökustaðurinn í Þjótanda er í vestri straumkantinum, beint út af klettshorninu.

22 FLJÓTANDI
Efsti veiðistaðurinn, Fljótandi, er fallegur og kyrrlátur staður þar sem áin líður hægt fram á milli steina sem þrengja eilítið að henni. Í góðu vatni veiðist vel í Fljótanda og er staðurinn með skemmtilegri flugustöðum í ánni. Tökusvæðið er frá grjóti sem gárar vatnsyfirborðið, 5-8 metra ofan þrengslanna, niður um þau, u.þ.b. 20-30 metra.
23 GLANNI
Dulúðugur og margslunginn veiðistaður sem oft geymir stórlaxa. Hér hefur til forna verið feiknamikill foss sem hefur brotnað niður í aldanna rás. Best veiðist í austurræsinu og töluvert niður með berginu en einnig veiðist að vestanverðu þótt í minni mæli sé.
24 BAKKASTRENGUR
Tökustaðurinn er í kringum grjót í botninum fyrir miðju, ca 20 metra fyrir neðan skiltið.
25 ÁLFGERÐARHOLTSKVÖRN
Gjöfull og skemnmtilegur staður. Byrjað er út frá skiltinu og veitt niður beygjuna og niður undir útfallið.
26 TÚNSTRENGUR
Endar þar sem kvörnin byrjar. Lax getur tekið í fyrsta kasti frá skiltinu og jafnvel rétt að byrja aðeins ofan við skiltið.
27 MERKJAHÓLMI
Hefur ekki verið mjög gjöfull staður, í bland vegna þess að þangað er sjaldan farið. Ákjósanlegt er að veiða hólmann og Stórhólakvörnina saman. Veiðistaðurinn er renna milli tveggja grjótatanga efst og neðst á hólmanum og einnig getur lax tekið fyrir ofan stein á miðri flúðinni nokkru neðan við hólmann.
28 STÓRHÓLAKVÖRN
Kvörnin er lítill snotur staður í vesturkvíslinni og getur lax tekið út af og niður af klapparhorninu við vesturbakkann.
29 TANNALÆKJARBREIÐA
Einn af gjöfulustu veiðistöðum Langár, ásamt Breiðunni og Strengjunum. Hér koma á land ár eftir ár 100-200 laxar og hér hefur margur maður fengið maríulaxinn. Best er að veiða út frá austurbakkanum ofan við lækjarósinn, nokkuð út fyrir miðja á, snúa þar við og kasta að austurlandinu. Bestu tökustaðirnir er frá horninu, niður að vatnsdælunum tveimur, sem eru í hlíðinni fyrir neðan sumarbústaðina. Einnig getur lax tekið 30-50 metra niður með hlíðinni.
30 HÁHÓLSKVÖRN
Byrjið er út frá merkinu en tökustaðurinn er frá efri klapparhorninu á vesturbakkanum og niður með klöppinni endilangri. Aðaltökustaðurinn er rétt fyrir ofan klapparmiðju. Þar kemur örlítið vik og dýpi sem laxinum líkar.

31 SVÖRTUBAKKAR
I þessum streng er nær eingöngu veiði í júní og fram til júlíloka. Hér er einkum leirbotn sem ekki er aðlaðandi fyrir laxinn til sumarbúsetu. Veiðisvæðið er frá merkinu og niður með grasbakkanum að vestan niður að stórum steini í miðri á.
32 TUNNUSTRENGUR
Þegar þessi staður uppgötvaðist í kjölfar mikilla flóða, 1982 eða 1983, var járntunna við árbakkann þar sem landamerkjagirðing Valshamars og Hvítsstaða byrjaði og þaðan kemur nafngiftin. Hér er veiðisvæðið frá klapparhorninu á vesturbakkanum niður undir háspennulínuna.
33 GRASBAKKATORFA
Almættið bjó þennan stað til 1992 með gífurlegu jakahlaupi í kjölfar snöggrar hitabylgju í lok Þorra. Engu var líkara en að 1000 tonna jarðýta kæmi niður ána, risti upp bakkann eins og mjúkt smjör og byggi til 1,5 metra rás 60-80 metra niður með bakkanum sem segja má að sé einn samfelldur veiðistaður, frá flúðinni rétt neðan við merkið og niður fyrir grasbakkann.
34 LÆKJARÓS
Snotur strengur niður af flúðinni út af merkinu. Gefur ekki marga laxa og þá einkum í júní og fram undir miðjan júlí þegar lax er í göngu.
35 JARÐLANGSSTAÐAKVÖRN
Skemmtilegur og gjöfull staður. Bretarnir sem voru hér um aldamótin kölluðu hann Sandys Parlor, líklega vegna þess að einhver Sandy hefur tekið ástfóstri við hann. Hér er best að vaða yfir ána út frá merkinu á austurbakkanum og þegar komið er yfir að kasta í áttina á austurklöppinni en laxinn tekur best á milli klapparnefjanna og 10-20 metra niður fyrir neðra hornið.
36 BAULUSKARÐ
Strengurinn meðfram klöppinni undir raflínunni og á breiðu þar fyrir neðan gefur laxa á göngutíma og þegar mikið vatn er í ánni.
37 NEÐRI KRÍUTANGI
Hér getur lax tekið rétt fyrir neðan tangann og niður alla breiðuna.
38 EFRI KRÍUTANGI
Litli bróðir þess neðri en hér má einnig fá lax á brotinu fyrir ofan hornið.
39 NEÐRI HVÍTSSTAÐAHYLUR
Einkar fallegur og gjöfull, djúpur hylur. Byrjað er að vaða út frá merkinu, 2-3 metra, og kastað út fyrir miðju niður undir klapparhornið. Rétt er að fara ekki of neðarlega, fremur reyna að lengja köstin. Vaðið síðan yfir á brotinu á móts við merkið, snúið við og kastið yfir að austurlandinu og áfram eins langt niður eftir og hægt er að vaða. Að lokum er vaðið aftur yfir og nú veitt niður alla klöppina og niður fyrir beygjuna neðan við veiðihúsið. Mest veiðivon er samt rétt út frá klapparhorninu þar sem byrjað er

40 EFRI HVÍTSSTAÐAHYLUR
Þetta er hylurinn sem horft er niður í úr nýja veiðihúsinu Langárbyrgi. Best er að læðast fyrst niður undir klettinum og kasta yfir að vesturbakkanum. Helstu tökustaðir eru fyrir ofan og handan við tvö björg í miðjum hylnum og niður að klapparhorni vesturbakkans. Einnig er rétt að kasta einu sinni yfir breiðuna þar fyrir neðan. Hér er einnig ágætt að veiða frá vesturbakkanum og vaða þá yfir eyrina beint á móti Langárbyrgi.
41 BYRGISLAUT
Klöpp rís úr ánni nálægt vesturbakkanum og fyrir ofan hana er helst að fá lax en almennt fæst þarna lítill og jafnvel enginn afli þrátt fyrir að staðurinn sé einkar fallegur og veiðilegur.
42 HRAFNAKLETTAR
Hér er byrjað á klöppinni fyrir neðan mesta hvífyssið frá flúðinni neðan við litla fossinn og kastað að vesturlandinu niður að klöpp sem minnir á krókódíl. Hér veiðist helst í litlu vatni.
43 RENNUR
Mjög skemmtilegur staður fyrir Portlandsbragðið. Straumurinn er stríður niður gjótu í miðri á. Þar fyrir neðan kemur klöpp sem skiptir straumnum og bestu tökustaðirnir eru 2-3 þrjá metra fyrir ofan og einnig niður austurræsið.
44 RENNUR II
Þessi staður gefur einkum veiði er lax er í göngu og þarf ekki mörg köst til að ganga úr skugga um hvort lónbúinn hefur staldrað þar við.
45 SKÓGARÁS
Hér er sömuleiðis helst von í göngulaxi í kringum steinana á svæðinu frá merkinu og niður undir flúð fyrir ofan Rennur II.
46 MERKJAKVÖRN
Lítil breiða fyrir neðan hornið, rétt á merkjum Jarðlangsstaða og Stangarholts. Lax tekur helst í kringum stóra steininn neðst á breiðunni.
47 KRÍUBREIÐA
Hér hefur tekist að búa til mjög skemmtilegan og gjöfulan stað með því að þrengja ána að klapparflúð. Frá merkinu og niður að flúðinni, rúmlega 100 metra, er laxavon í svo til hverju kasti.
48 RÉTTARHYLUR
Út frá flatri klöpp rétt neðan við merkið er gjóta sem nær niður á flúðina. Þessi litli en skemmtilegi hylur gaf 50 laxa sumarið 1998.

49 STANGARHYLUR
Einn fjölbreyttasti veiðistaður Langár. Byrjað er rétt fyrir ofan þrengslin milli klettanna neðan við Stangarfossbreiðu þar sem jafnan fást flestir laxar. Tvær rennur eru beggja vegna klapparhryggjar sem liggur niður eftir endilöngum hylnum. Laxinn liggur langmest í vesturrennu. 15 metrum neðan við þrengslin grynnkar austurrennan og þangað er vaðið og veitt niður að tveimur klapparkollum sem standa yfirleitt upp úr. Farið er upp á þær og kastað áfram 10-20 metra niður vesturrennu. Vönduð yfirferð hér tekur lungann úr klukkustund.
50 STANGARFOSSBREIÐA
Þótt ekki veiðist hér margir laxar er rétt að kasta nokkur köst og byrja þar sem fossstokkurinn endar og veiða sig niður í Stangarhyl og áfram.
51 RAUÐABERG
Einn af fyrstu stöðunum sem búnir voru til af mannahöndum í Langá. Fyrir ofan Stangarfoss má heita að áin hafi runnið, breið og grunn, á klöpp á 5 km svæði án veiðistaða. Hafsteinn Sigurðsson hrl. heitinn byrjaði á því að ýta upp malareyrum og setja síðan grjótgarð neðst til að hækka vatnið. Fyrsta sumarið sen hann gerði þetta gekk þvílík risatorfa inn í hylinn að hann og félagar hans lönduðu 58 löxum á einum degi og eru til kvikmyndir af því er aflanum var ekið í hjólbörum að bústað hans. Hér veiðast á hverju ári 20-30 laxar.
52 FLÚÐAKVÖRN
Ekki mjög gjöfull staður en gefur helst lax í göngu.
53 HREIMSÁSSKVÖRN
Beint framhald af Hreimsássbreiðunni en lax tekur frá kvörninni og 15-20 metra niður eftir.
54 HREIMSÁSSBREIÐA
Hér hefur áin verið þrengd niður að flúð, svipað og Kríubreiða, og er einn samfelldur tökustaður frá merkinu og niður að kvörninni. Þessir staðir gáfu yfir 100 laxa 1998.
55 HRAFNSEYRARENDI
Lítil breiða fyrir neðan stóran stein í miðri ánni.
56 HRAFNSEYRI
Skemmtileg og oft gjöful breiða frá beygjunni og niður með bakkanum, niður að þremur steinum í miðri á.
57 HRAFNSEYRARSTRENGUR
20-30 metra strengur rétt ofan við eyrina sem endar á lítilli flúð.
58 KISTA
Enn einn staður þar sem áin var þrengd til að skapa dýpi og laxabústað. Laxinn tekur rétt ofan við grjótgarðinn nálægt vesturbakkanum.
59 KLETTSBREIÐA
Smápallur ofan við lága flúð.
60 HÓLSBREIÐA
Tilbúin breiða sem oft gefur lax.
61 JÓSEF
Skemmtilegur strengur neðan við flúðakvörn.
62 LANGISJÓR, BEYGJAN
Neðsti staðurinn af þremur í Langasjó en hér var ánni beint í einn farveg úr mörgum álum. Hér tekur lax ofan við steininn neðst á breiðunni.
63 NEÐRI LANGISJÓR
Helst er laxavon rétt ofan við grjótgarðinn.
64 LANGISJÓR
Hér notuðu menn stórgrýti í ánni til að mynda hólma sem síðan var kjarri klæddur og minnir á Hólmavaðsstíflu í Laxá í Aðaldal þótt vatnsmagnið sé ólíkt. En tökustaðir eru frá báðum bökkum og niður í ræsin. 60 laxar veiddust hér sumarið 1998.

65 FLUGVALLARSTRENGUR
Lítil flúð rétt ofan við Langasjó. Þar fyrir ofan er smágjóta.
66 MELSENDI
Melsendi var í eina tíð stór veiðistaður, áður en Sveðjustiginn var opnaður og þar með leið fyrir laxinn upp á Grenjadal, „Fjallið“. Nú veiðast þarna fáir laxar. Veitt er frá báðum bökkum.
67 HORNHYLUR
Afar skemmtilegur staður rétt fyrir neðan Sveðjugljúfur. Laxinn tekur oft á bláflúðinni, rétt við útfallið. Hér er feikna gaman að beita Portlandsbragði er lax kemur margoft til að skoða fluguna.
68 KLETTKVÖRN
Allstór breiða á palli neðst í gljúfrunum. Tökustaður er helst niður undir stórgrýtið í miðri á.
69 SVEÐJURENNUR
Aðaltökustaðurinn er í austurrennunni sem kemur beint niður úr Sveðjuhyl. Hér geta menn lent í ævintýrum er fiskur leitar niður í hávaðann og er eins gott að kunna fótum sínum forráð.
70 SVEÐJUMYLUR
Magnaður og skemmtilegur staður. Farið er niður eftir einstigi efst í hylnum og veitt niður að rennunum og áfram niður. Laxinn getur tekið um allan hyl og menn skulu gæta þess að kippa agninu ekki of fljótt upp úr.
71 BJARGSTRENGUR
Fyrsti staðurinn ofan við Sveðjustiga. Best er að keyra niður brekkuna og ganga þaðan ca 100 metra niður með klettunum þar til breiðan blasir við. Þetta er auðveld ferð og vel þess virði er laxinn tekur og menn reyna eftir mætti að halda honum upp í strengnum.
72 HELLISHYLUR
Hvíldarpallur og renna meðfram klettinum.
13 HELLISBREIÐA
Annar pallur töluvert stærri, rétt ofan við. Byrjað er að veiða fyrir neðan hvítfyssið og veitt niður með klettinum.
74 TVÍFOSS
Fallegur staður en ekki að sama skapi gjöfull. Helst von með að renna maðki í potta neðan við fossana.
75 HEIÐARENDI
Best er að vaða út á mitt brotið ofan við hylinn og kasta yfir á vesturbakka. Fikra sig síðan varlega niður af flúðinni og veiða breiðuna á enda. Sumum finnst staðurinn minna á Eyrina í Norðurá.
76 SIGGAPOLLUR
Smáhola í miðjum hávaðanum ca 60-70 metra fyrir ofan Heiðarenda. Auðvelt er að vaða upp með austurlandinu og þaðan út í miðja á ofan við pollinn. Hér hafa menn fengið flugulaxa en einkum er þetta staður fyrir orminn langa.
77 SKRIÐUFLJÓTSSTRENGUR
Þessi staður og Skriðufljótið urðu til við aurskriðu í kjölfar mikils úrfellis sumarið 1968. Hér er mest veiðivon í miðjum hylnum og neðst á brotinu. Í miklu vatni fæst einnig lax í vesturkvíslinni.
78 SKRIÐUFLJÓT
Þessi fallega breiða gefur laxa frá báðum bökkum. Byrjað er út frá merkinu neðst í hávaðanum og veitt niður á brotið þar sem áin klofnar. Hér gefa Portlandsbragð og strip oft veiði.
79 KOTEYRABROT
Fyrsti hvíldarstaður laxsins eftir að hafa brotist upp allar flúðirnar frá Skriðufljóti. Þetta er lygn og breiður staður en laxinn liggur í mörgum holum og gjótum yfir allt brotið. Veitt er frá báðum bökkum eða með því að vaða út í miðjuna og kasta að báðum bökkum.
80 HÓLMATAGL
Þessi staður er eiginlega tvískiptur fyrir ofan og neðan vaðið sem ekið er yfir. Veitt er frá merkinu og niður að hólmanum en einnig farið upp fyrir að litla hólmanum og veitt niður undir vaðið.
81 KOTEYRASTRENGUR
Raunar er hér um tvo strengi að ræða. Annar út frá merkinu á vesturbakkanum en hinn um 30 metrum neðar.
82 NEÐRI KAMPARÍ
Byrjað að veiða út frá merkinu og kastað í átt að klettinum neðan við stóran stein og niður á brotið.
83 KAMPARÍ
Jósef Reynis, arkitekt og Langárbóndi, veiddi hér sumarið 1967 fyrsta laxinn á Fjallinu eftir að stiginn var opnaður. Þá vissu menn auðvitað ekkert hvar lax myndi veiðast og leituðu með logandi ljósi. Svo mikil var hamingja hans og veiðifélagans er 12 punda hrygna var komin á landað þeir skáluðu í kamparí og helltu góðum slurk í Langá. Hér getur lax tekið alveg frá merkinu, niður alla beygjuna og niður að steininum neðst í strengnum.
84 GILSBREIÐA
Mjög skemmtileg breiða þegar mikið er í ánni. Veitt er frá lækjarósnum og kastað fyrir neðan stórgrýtið í ánni miðri. Lax getur tekið alveg niður undir brotið þar sem áin fellur ofan í Kamparí.
85 KOTAFOSSBREIÐA
Farið er niður með berginu og gengið ca 20 metra niður fyrir laxastigann og Veitt 60-80 metra niður eftir. Hægt er að veiða frá báðum bökkum.
86 LÆKJARBREIÐA
Best er að byrja á breiðunni út af merkinu og setja stefnu á stórt bjarg út af vesturbakkanum. Í venjulegu vatni er óhætt að hætta hjá bjarginu en halda áfram 10 metra ef vatn er mikið.
87 FLÚÐAHOLA
Mjög skemmtilegur og oft gjöfull hylur þar sem laxinn getur tekið bókstaflega á blábrúninni þegar flugan virðist komin út úr hylnum. Vaðið er út frá merkinu og kastað yfir að klapparhorninu og alveg niður á brotið.
88 HORNBREIÐA
Hér er laxavon um alla breiðuna, jafnt efst sem neðst. Síðasta vertíðardaginn 1986 veiddi sá er þetta skrifar 20 punda hæng á splunkunýja Þingeyingstúbu. Eg setti í hann um sexleytið og Orri Vigfússon veiðifélagi minn landaði honum í svartamyrkri um áttaleytið. Við vissum ekki fyrr en þá hve stór hann var, þegar Orri sagði, stundarhátt: „Ég næ ekki utan um stirtluna á helvítinu.“
89 EFRA HORN
Mjög misgjöfull staður en hægt að fá fisk frá hvítfyssinu neðan við hornið og niður alla beygjuna.
90 TÓFUFOSS
Gefur sjaldan fisk eftir að laxastiginn var byggður en áður fyrr söfnuðust þarna fyrir torfur af laxi sem tóku oft grimmt.
91 TÓFUFOSSBREIÐA
Aðaltökustaðurinn er fyrir neðan Myrkhylsþrengslin og niður undir eystri brún Tófufoss. Þetta er einkum síðsumarsstaður.
92 MYRKHYLSRENNUR
Djúpur og yfirleitt straumharður hylur sem helst gefur veiði er lítið vatn er í ánni. Stórt bjarg er í honum neðarlega í hylnum og helst að lax taki fyrir framan það.
93 ÁRMÓTAFLJÓT
Efsti veiðistaður Langár, um 300 metra ofan við ármótin við Gljúfurá. Byrjað er uppi í strengnum, út af merkinu og vaðið eins langt niður og hægt er og kastað á milli tanganna á austurbakkanum. Hér fyrir ofan eru engir þekktir veiðistaðir en lax gekk upp fyrir Heiðasundafoss í fyrsta sinn 1996 til að hrygna. Talið er að fyrstu gönguseiðin kunni að fara til hafs í vor, 1999, og komi til baka á aldamótaárinu. Þar með verður landnámi Langárlaxins frá ósum að Langavatni lokið og við bætast 4 km og líklega 10 veiðistaðir til viðbótar. Fundur þeirra og lýsing bíður því eitthvað fram á næstu öld.

%20(1).jpg)
