Til baka

Litlaá

Litlaá í Kelduhverfi

Eftir Erling Ingvarsson

Veiðistaðalýsing Litluár

Veiðistaðalýsing mín á Litluá rúmast í einni setningu: Byrja efst og veiða sig varlega niður eftir ánni, alveg niður í ármótin við Stóruána, Jökulsá á Fjöllum. Þetta er samt kannski helst til snubbótt og billegt miðað við það sem er borgað fyrir greinaskrif í Sportveiðiblaðið (ég er enn að reyna að eyða því sem ég fékk síðast) svo að ég reyni hérna aðeins lengri útgáfu.

Þegar við Pálmi Gunnarsson leigðu ána saman vorum við sammála um að hafa engin merki við ána, þau eru oftar en ekki til alls kyns vandræða og lýta á umhvefinu, menn geta bara drullast til þess að læra á ána. Hver hefur til dæmis ekki hrasað um svona merki, rifið vöðlurnar sínar og flækt flugur og línur í þeim? Síðan virka þau eins og segull á rollurassa sem finnst gott að klóra sér á þeim. Þetta á sérstaklega við um Litluá því að það gildir sem sagt var í stuttu útgáfunni: byrja efst og veiða sig varlega niður eftir. Það er ekki til sá 10 metra kafli í ánni sem ekki heldur fiski eða getur gefið fisk.

Að því sögðu er komið að lýsingunni:

Litlaá rennur úr Skjálftavatni og er þá frekar vatnslítil en eykur við sig hratt þar sem vatnið kemur undan hraunjaðrinum í stríðum straumum. Jarðhiti er í Brunnum vestan við Keldunes en hitinn á því vatni heldur Litluánni íslausri allt árið og er að miklu leyti ástæða sérstöðu lífríkisins, þ.e. hinnar miklu framleiðslu á lífmassa og miklum vaxtarhraða silungsins. Skjálftavatnið hefur verið stangaveitt núna í nokkur ár og gefur það ágætis veiði, bæði stórar bleikjur og urriða. Mesta veiðin er við uppspretturnar austan Kelduness og er þá ekið niður hjá fjárréttinni á milli Kelduness og Hóls.

Frá upptökum Litluár að þjóðveginum er ekki veiðistaður en í hyljunum undir ræsunum sem hleypa ánni undir veginn er alltaf fiskur og oft stórir urriðar, sérstaklega í því syðra. Þaðan liggur áin í nokkrum beygjum, sem vert er að prófa því að þar er oft fiskur, að því er hún mætir volga vatninu sem að framan er nefnt, það er Brunnabreiða. Stundum er Brunnabreiðan alveg pökkuð af fiski, sérstaklega snemma á veiðitímanum Þegar fiskurinn liggur á mörkum heita og kalda vatnsins. Breiðan, alla leið þar til hún þrengist aftur, geymir líka fisk, sérlega við litla hólmann sem er þar.

Hundrað metrum neðar þrengist áin og þar er oft gott til fanga, líka í ánni þar sem hún þrengist, þar er alltaf urriði og stundum lax. Þar á eftir beygir hún til norðurs og við tekur breiða sem gefur oft góða veiði og síðan tekur áin aðra svipaða þrengingu og norðurbeygju. Í henni eru mjög djúpir „skápar“ sem geta reynst varasamir ef vaðið er, að sama skapi geta þeir geymt stóra fiska. Þarna setti ég í annan tveggja verulega stórra fiska sem ég hef sett í í Litluá. Ég var með Stefáni bróður mínum og var með 20 punda taum sem hann náði að slíta þegar við vorum um það bil að ná honum og sáum við hann því vel, þetta var sjóbirtingur og sá var áleiðis í 20 pundin. Hinn fiskinn setti ég Í ármótunum við Jökulsá og var því væntanlega líka sjóbirtingur, en hann sleit 25 punda taum eftir korter þar sem tvíhendan var í keng allan tímann, þetta gæti líka hafa verið útselur.

Jæja, eftir þessa beygju tekur við stór og djúpur hylur sem mér finnst einkar skemmtilegt að synda í, þar er nóg pláss og hitastigið passlegt, þar er líka alltaf fiskur eins og ætti að vera orðið ljóst þeim er les. Næst tekur áin u-beygju við svokallaðan Byttuhól og þá erum við farin að nálgast Skúlagarð. Eftir u-beygjuna taka við síðustu flúðirnar á leið Litluár niður á sandinn. Við enda þeirra, út af gömlu seiðaeldisstöð Árlax en núverandi fjárhúsum Þórarins Sveinssonar í Krossdal, er mjög góður veiðistaður sem oft geymir stóra fiska. Þar stóðum við Pálmi eitt sinn með Kára heitnum Þórarinssyni í Laufási og rétti ég honum stöngina eftir að fiskur tók, stökk og var líflegur en síðan dró af honum. Kári var ekki vanur veiðimaður og sagði þá: „Hvernig látiði hann stökkva svona strákar?“ Það kann að vera að Kári hafi verið að grínast, blessuð sé minning hans.

Litlaáin hægir núna á sér og breytir svolítið um karakter, aðal stórfiskastaðir hennar eru þó eftir. Kvíslin sem kemur frá Skúlagarði geymir oft mikið magn smásilungs sem gengur út í Litluána á vorin og er þá oft gaman að leika við þá á breiðunni niður af fjárhúsinu. Næsti staður er Mylluhylurinn fyrir neðan bæinn í Árdal, þar sem áin beygir til norðurs. Hann geymir alltaf stóra fiska og einnig breiðan niður að hólmanum, sem er þar hundrað metrum neðar. Þarna við hólmann veiddi Gústaf Gústafsson á Húsavík 19 punda urriða fyrir mörgum árum en Gústaf var býsna glúrinn að ná þessum stóru, hann var af gamla skólanum og var ekki hrifinn af v&s kerfinu sem við Pálmi innleiddum í Kelduhverfinu árið 2000, vildi taka sinn fisk með heim og ber að virða það viðhorf. Þó er ekki laust við að þessi tilraun hafi gefist vel því að nú veiðast miklu fleiri fiskar og stærri en áður í Litluánni.

Fyrir neðan hólmann þrengist áin og tekur aftur beygju til norðurs, þar fyrir neðan er oft fjör. Þarna erum við fyrir neðan Laufás og frá þessum stað niður að Nýjabæ og svo áfram niður í ármót er gott að nota fyrstu aðferðina sem ég lýsti: veiða sig varlega niður eftir því að holur geta geymt þann stóra á allri leiðinni. Þær kalla á varfærni og eljusemi við að staðsetja, svo að hægt sé að lenda í birtingnum eftir því sem nær dregur ármótunum. Þau breyta sér alltaf eitthvað ár frá ári en geyma alltaf sjóbirting, menn skulu samt fara varlega því að sandbleytur geta verið þar niður frá. Þarna mætir Litlaáin Stóruánni, Jökulsá sjálfri, á Fjöllum en sú fyrrnefnda rennur að miklu leyti í gömlum farvegi þeirrar síðarnefndu og aðeins tímaspursmál hvenær Jökulsáin heimtar gamla farveginn sinn til baka.

Á meðan skemmtum við okkur við Litlaárurriðann, þá merkilegu skepnu og frænda hans sjóbirtinginn en báðir munu lifa af farvegaskiptin.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar