Til baka

Vitaðsgjafi í Laxá í Aðaldal

Vitaðsgjafi - stórlaxastaður í Laxá í Aðaldal.

Eftir Völund Þ. Hermóðsson

Laxá í Aðaldal rennur norður á milli bæjanna Haga og Hólmavaðs um miðjan dalinn, en beygir austur að Geithelliseyjum á milli Grástraumshóla. Við eyjarnar breytir áin aftur um stefnu um svokallað Horn og fellur misþungt eftir breidd og botnlagi undir Hvammsheiði til sjávar hjá Laxamýri. Hver veiðistaður hefur sín einkenni sem eru bergranar og björg upp úr botninum sem eru óbreytanleg, en sandur leggst misjafnt eftir ísalögum og straum að vetrinum, eða flóðum og vorleysingum þannig að veiðistaðir breytast nokkuð á hverju ári. Þó er einn staður sem breytist lítið en það er Vitaðsgjafi milli Hornsins og Geithelliseyjar neðri. Þar er botnlag þannig að við vesturbakka eru sandgryningar á ca. 50 metra löngum kafla sem ná út 5 - 15 metra Í miðri á og austur við eyju eru klettaranar í botni árinnar og djúpar gjár sem gera Vitaðsgjafa með skemmtilegustu veiðistöðum, og eitt er víst að hann hefur gefið flesta laxana yfir 20 pund á okkar veiðisvæðum. Á 25 ára tímabili, 1962 -1986, veiddust hjá okkur 298 laxar yfir 20 pund og þar af gaf Vitaðsgjafi 58 laxa.

Þegar ég var strákur var gengið í varp í eyjunum og eggin borin heim í vatnsfötum, en með landnámi minksins upp úr 1950 hvarf það að mestu. Með þessum ferðum í eyjarnar og við heyskap, en þær voru alltaf slegnar, þá var Vitaðsgjafinn sá staður í ánni sem ég kynntist einna fyrst. Steingrímur í Nesi og Hermóður í Árnesi veiddu alltaf saman og fór ég með þeim strax og mér var treyst til að sitja sæmilega rólegur í bátnum og 1950 var ég farinn að róa með þá á Vitaðsgjafa, en þá var veiðilagið að róið var fram og til baka þvert yfir ána og látið sakka örlítið í hverri ferð. Annar veiðimaðurinn hafði flugu en hinn maðk og var línan dregin á eftir bátnum. Nú er lagst við stjóra og kastað frá bátnum, eða vaðið frá öðrum hvorum bakkanum. Úr þessu fer ég að róa með aðra veiðimenn dag og dag og fylgdarstarfið er hafið. Á þeim 40 árum sem ég man vel eftir þessum veiðistað fer ekki hjá því að margs er að minnast í sambandi við veiðiskapinn, ekki síst fegurðarinnar sem er undurmikil og síbreytileg eftir veðurfari og árstíma. Fullkomið samræmi er í allri náttúrunni: Fjallahringurinn mjúkur og ávalur með giljum og hvömmum, gróður fjölbreyttur ofan í vatnsborð árinnar. Á heitum, lygnum morgni er vatnsborðið eins og spegill, ekkert heyrist utan þytur í stöngum rétt á meðan kastað er, gjálfrið við kinnung bátsins, suð í flugum og fuglasöngur. Þetta blandast ilmi frá marglitu blómskrúði eyjanna og verður svo mögnuð heild að vitundin skerpist og víkkar þannig að maður og náttúra verða ein samofin heild. Stundum ýfir norðangarrinn ána og rekur regn eða krapahryðjur niður heiðina og þá heldur kuldahrollurinn þér við efnið.

Á veiðum kynnast menn mjög vel, sérstaklega á bátaveiðum. Sumarið 1985 gekk lax seint og veiði var treg framan af. Í fyrstu viku júlí fylgdi ég manni að nafni Phil Bowie. Eftir fjóra fyrstu dagana var hann laxlaus en hann ætlaði að dvelja hér í viku. Að morgni fimmta dagsins átti að veiða í Grástraum og Vitaðsgjafa. Þennan morgun fórum við seint út, eyddum nokkrum tíma í Grástraum, en urðum ekki varir, sáum þó lax. Um kl. 11 erum við komnir niður á Vitaðsgjafa, hrollkaldir eftir vaðalinn í Grástraum, sitjum í bilnum og hlýjum okkur. Eins og eðlilegt er var Phil orðinn ærið svartsýnn á veiðigetu sína, en orsakanna var ekki að leita þar því hann var ágætur veiðimaður, heldur var veður glært og óhagstætt og óheppnin hafði elt hann. En það er hægara sagt en gert að snúa vonleysi upp í rétta veiðitilfinningu. Við sitjum og röbbum saman og þar kemur að ég segi honum söguna af laxinum sem hélt lífinu í gömlum vini mínum.

Hann heitir Ed Robson og hefur veitt hér hvert sumar frá 1971, ekkert sumar fallið úr til þessa. Veturinn 1984 fékk hann þrisvar heilablæðingu, í hvert sinn var hans helsta hugsun þegar hann náði meðvitund að hann yrði að lifa, svo að hann kæmist til veiða í Laxá um sumarið. Í seinasta skiptið sem hann veiktist var hann talinn af og allt hans skyldulið kallað til sjúkrahússins til að kveðja þann gamla. Eftir þessu mundi hann óljóst, en því betur eftir því að hann dreymdi stöðugt sama drauminn, hann dreymdi stóra laxinn sem við misstum á Vitaðsgjafa sumarið áður, á meðan fjölskyldan beið milli vonar og ótta, lifði hann í sælum draumi ævintýrisins og þegar hann komst til meðvitundar tók við þráin eftir því að ná bata og takast á við ný ævintýri á veiðum. Ed er þess fullviss að þessi sterka þrá eftir íslensku ævintýraánni hans hafi haldið vakandi svo sterkum lífsvilja að hún sigraði dauðann. Atvikið sem um er rætt var það að við vorum á veiðum á bát og lágum við stjóra á Vitaðsgjafa. Robson kastar austur að eyjunni og við fylgjumst með flugunni sem rétt liggur undir yfirborðinu. Við sjáum mikinn boða koma á eftir henni sem vex og ólgar heil feikn þegar laxinn tekur rétt áður en flugan hefði stöðvast. Spenningur okkar stigmagnaðist, og gamli maðurinn bregður rétt við. Vel tekinn laxinn sýnir engin tilþrif heldur kafar rólega og syndir upp álinn milli okkar og eyjarinnar, á móts við bátinn þurrkar hann sig alveg upp úr og skellur niður á hliðina þannig að gusurnar af honum ganga yfir bátinn. "Guð almáttugur", sagði sá gamli, enda engin furða því þetta var einn stærsti lax sem ég hefi séð.

Skammt ofan við bátinn snýr laxinn við og er ferð á honum niður að eyjunni svo að hvín í hjólinu. Öll línan er nær komin út þegar ég hef rifið upp akkerið, í því stekkur laxinn og sleit 22ja punda girni eins og kveik. Þarna skildi með okkur og við dömluðum í land, hljóðir hver með sínar hugsanir, en svona atvik lætur engan ósnortinn. Eitt var þó gott að í þessu tilfelli gerðum við ekki mistök, laxinn var einfaldlega okkar ofjarl.

Eftir þessa sögu er Phil tilbúinn að reyna um stund og klukkan er orðin 11:30 þegar við komum í bátinn. Ég ætla að róa og ekki eyða of löngum tíma. Við höfum reynt tvær flugur, árangurslaust og setjum á Blue Sveep nr. 6. Austur undir eyjunni er þröng klettaskora og þungur straumur á parti og mjög góður tökustaður á lófastórum bletti. Flugan fer nokkrum sinnum yfir þennan blett án árangurs og reyni ég þá aðferð sem oft virkar: Ég kippi bátnum upp um tíu metra og bið eftir að flugan sé á réttum stað, sting síðan á og flugan sekkur ofan á skoruna. Á réttu augnabliki þarf að kippa eina 4 - 5 metra og draga þar með fluguna upp úr svelgnum. Það er eins og við manninn mælt, lax er á og tekur rólega en ákveðið. Við glímum við laxinn um stund frá bátnum, en það er öruggara því festar eru til í miðri ánni og hættulegt að fara of fljótt í land að vestan. Aldrei sáum við laxinn og förum í land, en hann leitar alltaf undan straum þannig að við förum aftur í bátinn og fylgjum honum eftir. Hann tekur smá rokur og á móts við neðra eyjarhornið verður hann endanlega vitlaus og öslar í yfirborðinu og eins og tundurskeyti út og austur að heiðinni svo hratt að ég fylgi honum ekki á bátnum. Það eru ekki margir vafningar eftir á hjólinu þegar tekst að stöðva hann. Á Presthyl stendur viðureignin langa stund og ég ætla að landa á Sauðatanga eins og venja er þarna.

Er í land kemur snýr það sama upp, laxinn leitar enn undan straum og við erum nauðbeygðir að fylgja eftir. Það þarf ekki að orðlengja það að viðureignin endaði í Þvottastreng, rúman km. neðan við Vitaðsgjafa. Er við komum þarna niðureftir voru mættir margir veiðimenn því klukkan var farin að ganga tvö. Þessir áhugamenn eru oftast óvelkomnir og varasamir því oft eru þeir framar á bakkanum en veiðimaðurinn og valda styggð. Oft hef ég lent í miklum vanda af þessum sökum, en þó verstum eftir að hafa sett í lax með veiðimanni á Vitaðsgjafa og fylgt honum eftir á bát niður í Kirkjuhólmakvísl sem er enn neðar en Þvottastrengur. Þar beið okkar móttökunefnd með góð ráð og leiðbeiningar. Þegar ég ætlaði að landa laxinum styggðist hann af umferð á bakkanum, tók viðbragð og sleit 20 punda girni. Þessi lax var mjög stór og hafði gefið okkur mikið í tveggja tíma viðureign og í sjálfu sér ekkert við því að segja að missa hann, en bara ekki vegna mistaka.

En áfram með söguna af laxinum hans Phil, við búum okkur til að landa og hlustum ekki á góð ráð frá móttökunefndinni. Ég ætla að láta laxinn synda í háfinn, en hann er of langur þannig að nær helmingur hans er utan við hringinn. Ég næ í sporðinn en tæplega utanum sporðstæðið. Þannig get ég haldið honum þangað til Viðar sem hefur verið fylgdarmaður hér í mörg ár kom að og hjálpaði til að draga allt á land. Þessi lax reyndist vera 29 pund og er nú uppstoppaður í Veiðiheimilinu í Árnesi. Hann var valinn til þess bæði vegna stærðar og að hann var nýrunninn og því mjög fallegur. Þessi viðureign stóð í 95 mínútur. Mikið lifandi skelfing var Phil glaður og hann vildi ekki reyna meira við veiðiskap það sem eftir var ferðar.

Þessar sögur eru sannar og um þær efast enginn, en til eru sögur sem margir draga í efa og hér er ein af þeim: Þó að mikið sé um stóra laxa á Vitaðsgjafa, hafa þeir verið til stærri á árum áður. Fyrir langa löngu voru tveir menn á báti á Vitaðsgjafa. Þeir réru og voru staddir á miðri ánni, þá stekkur mikill lax ofar í álnum og skiptir það engum togum að þegar skugginn af honum fellur á borðstokkinn hvolfir bátnum undir þeim.

Sjá allar lýsingar
Sjá allar lýsingar